Hungursneyð fer vaxandi á ný

Um 815 milljónir manna, eða um 11% jarðarbúa, þjáðust af hungri á árinu 2016 að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hungruðum fer nú fjölgandi, sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur síðasta áratuginn þegar hungruðum fækkaði jafnt og þétt. Vaxandi hungursneyð á sér einkum tvær orsakir samkvæmt skýrslunni, þ.e.a.s. hernaðarátök og loftslagsbreytingar. Verst er ástandið í austanverðri Afríku þar sem 33,9% íbúa þjást af hungri. Í skýrslunni kemur fram að til þess að ná heimsmarkmiðinu um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030 þurfi að ráðast að öllum þeim þáttum sem grafa undan fæðuöryggi í heiminum.
(Sjá frétt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) 15. september).

Um 430.000 manns deyja vegna loftmengunar í Evrópu

loftmengunÁ hverju ári má rekja um 430.000 dauðsföll í Evrópu til loftmengunar samkvæmt nýrri skýrslu frá Umhverfisstofnun Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að loftmengun sé helsta dánarorsök í álfunni þar sem mengunin stuðli að hjartasjúkdómum, krabbameini og vandamálum í öndunarfærum og dragi þannig úr lífslíkum og lífsgæðum Evrópubúa. Um 87% Evrópubúa í þéttbýli búa við svifryksmengun sem er ofan við viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Viðmiðunarmörk ESB eru mun lægri en mörk WHO og bjuggu samkvæmt þeim aðeins 9% íbúa við óviðunandi mengun. Koma mætti í veg fyrir um 144.000 ótímabær dauðsföll árlega ef Evrópusambandið myndi innleiða staðla WHO. Mest loftmengun í Evrópu mælist í Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi, Frakklandi og Bretlandi.
(Sjá frétt EDIE 30. nóvember).

Fjöldamálsóknir vegna Roundup undirbúnar vestra

73776Lögfræðistofur víða um Bandaríkin safna nú liði fyrir fjöldamálsóknir gegn efnavörurisanum Monsanto á þeim forsendum að plöntueitrið Roundup sem fyrirtækið framleiðir hafi valdið krabbameini í sækjendum, þ.á.m. non-Hodgkin eitlafrumukrabba (NHL). Ætlunin er að sýna fram á það fyrir dómi að Monsanto hafi ranglega haldið því fram að virka efnið í Roundup (glýfosat) væri skaðlaust, þó að fyrirtækinu hafi þá þegar verið ljóst að það gæti valdið krabbameini. Málaferlin koma í kjölfar yfirlýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í marsmánuði síðastliðnum um að glýfosat væri líklegur krabbameinsvaldur. Roundup er notað um allan heim í landbúnaði og garðrækt og hefur skapað Monsanto tekjur upp á 4,8 milljarða dollara (um 600 milljarða ísl. kr.) á síðustu 12 mánuðum. Um þessar mundir stendur Monsanto einnig frammi fyrir a.m.k. 700 málsóknum vegna ásakana um að PCB sem fyrirtækið framleiddi á sínum tíma hafi valdið non-Hodgkin eitlafrumukrabbameini.
(Sjá frétt PlanetArk 16. október).

5.000 danskir garðeigendur hættir að eitra

dreng-i-have-600x338pxÁ síðustu fjórum mánuðum hafa um 5.000 garðeigendur í Danmörku hætt að nota Roundup og önnur eiturefni í garðræktinni og tilkynnt þátttöku sína í átakinu Eiturlausir garðar („Giftfri Have“), sem Náttúruverndarsamtök Danmerkur (DN) standa að í samvinnu við fleiri aðila. Tilkynning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á liðnu vori um að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini, hefur væntanlega ýtt undir þessa þróun, en frá því að þetta var upplýst hefur Roundup víða verið bannað eða fjarlægt úr búðarhillum. Þannig hefur sala efnisins til einkaaðila verið stöðvuð í Frakklandi og Hollandi og á Sri Lanka hefur verið komið á innflutningsbanni, auk þess sem þar hefur verið bannað að dreifa því glýfosati sem þegar hefur verið keypt. Þá hefur efnið verið tekið úr sölu í a.m.k. 1500-2000 verslunum í Sviss, Þýskalandi og Danmörku, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu DN 5. október).

Roundup skilgreint sem krabbameinsvaldur

roundup_tv2_160Vinnueftirlit Danmerkur hefur sett hinn vinsæla illgresiseyði Roundup á lista yfir krabbameinsvaldandi efni í framhaldi af útkomu skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem fram kemur að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini. Um leið og efni hefur verið skilgreint sem krabbameinsvaldur aukast varúðarkröfur við notkun þess. Roundup er mest notaði illgresiseyðir í heimi og í Danmörku voru notuð 1.389 tonn af efninu árið 2013 í landbúnaði og við umhirðu garða. Eitlakrabbameinstilfellum hefur fjölgað verulega þarlendis síðustu áratugi og nú greinast rúmlega 1.000 Danir með sjúkdóminn árlega. Notkun Roundup hefur nú þegar verið bönnuð á Sri Lanka og í Kólumbíu og í Argentínu berjast læknar fyrir notkunarbanni. Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislyfjafræði við Háskóla Suður-Danmerkur (Syddansk Universitet), segir nauðsynlegt að draga úr notkun efnisins. Jafnframt verði þó að vera á varðbergi gagnvart því að enn hættulegri efni verði ekki tekin í notkun í staðinn.
(Sjá frétt TV2 28. maí).

Gríðarleg loftmengun í Mekka

141215123049-largeMikil loftmengun mælist í Mekka dagana sem Hajj stendur yfir, en árlega flykkjast þá milljónir múslima í pílagrímsferð til borgarinnar. Hópur vísindamanna sem mælt hefur loftmengun í 75 borgum víðsvegar um heiminn segir að loftmengunin í Mekka sé engu lík á þessum tíma, enda komi þá 3-4 milljónir manna til þéttbýllar borgar þar sem loftgæði eru slæm fyrir. Verst verður ástandið í göngum sem liggja að Masjid al-Haram, sem er stærsta moska í heimi, en þar hefur styrkur kolmónoxíðs t.d. mælst allt að 57.000 ppb (57 milljónustupartar) sem er um 300 sinnum hærra en eðlilegur styrkur efnisins í Sádi-Arabíu. Kolmónoxíð eykur líkur á hjartaáfalli auk þess sem það getur valdið höfuðverk, svima og ógleði. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að árið 2012 hafi um 4,3 milljónir manna látið lífið vegna innanhúsloftmengunar og um 3,7 milljónir vegna loftmengunar utandyra. Um eitt af hverjum átta dauðsföllum í heiminum má rekja til loftmengunar.
(Sjá frétt Science Daily 15. desember).