Snyrtivörur geta mengað sundlaugarvatn

sundlaugar_160Ýmis skaðleg efni úr snyrtivörum og lyfjum sem sundlaugargestir nota geta borist í sundlaugarvatn og hugsanlega hvarfast við klór og myndað þannig sótthreinsiefni með lítt þekkta virkni. Vísindamenn frá Háskólanum í Purdue í Indíana mældu nýlega nokkrar tegundir efnasambanda í sundlaugarvatni og fundu meðal annars DEET sem er virka efnið í sumu skordýraeitri, koffín og eldvarnarefnið tríklóróetýlfosfat (TCEP). Sum efni af þessu tagi geta gufað upp og komist þannig inn í öndunarveginn eða borist í líkamann í gegnum húð eða um meltingarfæri. Rannsóknin náði einungis til 32 efna, en vísindamennirnir telja að efnin geti skipt þúsundum. Losun efnanna í sundlaugar er í raun stjórnlaus og fátt vitað um hugsanlegar afleiðingar.
(Sjá frétt ENN 6. janúar).

Lítt þekkt eldvarnarefni finnast í þvagi

sofaÍ nýrri rannsókn á eldvarnarefnum í þvagi Bandaríkjamanna fannst mikið magn af lítt rannsökuðum fosfatefnum. Sérstaka athygli vakti að efnið TCEP (trís-(2-klóretýl) fosfat) fannst í 75% þvagsýnanna, en efnið hefur ekki áður verið mælt í þvagi. Eldvarnarefni úr fosfati er m.a. að finna á bólstruðum húsgögnum. Efnin eru krabbameinsvaldandi auk þess sem sum þeirra (m.a. TCEP) hafa áhrif á taugastarfsemi og starfsemi æxlunarfæra. Efnin berast oftast inn í líkamann með innöndun, en rannsóknin sýndi einmitt fram á fylgni milli styrks efnanna í þvagi og í ryki á heimili sömu einstaklinga. Bann hefur verið lagt við notkun tiltekinna eldvarnarefna, en umrædd fosfatefni hafa ekki fengið mikla athygli hingað til, þrátt fyrir skaðsemina.
(Sjá frétt Science Daily í dag).