Lífbrjótanlegt plast er ekki lausnin

viewimageAukin notkun á svonefndu lífbrjótanlegu (e. biodegradable) plasti mun ekki leiða til minni plastmengunar í hafinu að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Plast sem er framleitt þannig að það brotni hraðar niður í náttúrunni en venjulegt plast þarf oftar en ekki allt að 50°C í nokkurn tíma til að niðurbrotið hefjist og slíkar aðstæður eru ekki í sjónum. Auk þess er hætt við að fólk umgangist plastið af meira kæruleysi en ella ef það er merkt sem „lífbrjótanlegt“. Nú er talið að allt að 20 milljónir tonna af plasti endi í hafinu á ári hverju.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP í dag).

Raftækjaúrgangur á villigötum

weee_160Raftækjaúrgangur fyrir 19 milljarða Bandaríkjadala (um 2.500 milljarða ísl. kr.) er seldur árlega á svörtum markaði eða honum fargað á ólöglegan hátt samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunnar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Samkvæmt skýrslunni er þarna um að ræða 60-90% af öllum raftækjaúrgangi sem til fellur, en samtals verður um 41 milljón tonna af raftækjum að úrgangi á ári hverju. Raftækjaúrgangur er iðulega fluttur ólöglega til þróunarríkja þar sem verðmætir málmar og fleiri efni eru tínd úr og seld. Þetta er oftast gert við mjög slæm skilyrði þar sem starfsmenn eru í daglegri snertingu við skaðleg efni og þungmálma sem geta safnast upp í líkamanum. UNEP bendir einnig á að með þessu séu þjóðir að missa auðlindir úr landi þar sem úrgangsmeðhöndlun og flokkun úrgangs getur verið atvinnuskapandi í heimalandinu og skapað verðmæti með sölu endurvinnanlegra efna. Mikilvægt sé að taka á þessu vandamáli með auknu alþjóðlegu samstarfi og samræmi í löggjöf og eftirfylgni á heimsvísu og í hverju landi fyrir sig.
(Sjá frétt UNEP í dag).

Vínarsamningurinn 30 ára!

ozonelayer_160Vínarsamningurinn um vernd ósonlagsins fagnar 30 ára afmæli nú á sunnudaginn. Samningurinn var undirritaður í Vín í Austurríki 22. mars 1985 og er, ásamt Montrealbókuninni sem gerð var við hann haustið 1987, eini alþjóðlegi samningurinn um umhverfismál sem fullgiltur hefur verið af öllum ríkjum heims. Montrealbókunin þykir einstakt dæmi um vel heppnað samstarf á alþjóðavettvangi, en losun ósoneyðandi efna hefur dregist saman um 98% á síðustu þremur áratugum og árleg krabbameinstilfelli eru talin vera tveimur milljónum færri en þau myndi annars vera. Þessi góði árangur er flestu öðru fremur talinn stafa af því að stefnumótunin var frá upphafi byggð á vísindalegum rannsóknum.
(Sjá frétt UNEP í dag).

Nemendur verðlaunaðir fyrir matarsóunarverkefni

ThinkEatSaveUmhverfisstofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNEP) verðlaunaði í dag þrjá nemendahópa fyrir framúrskarandi verkefni sem stuðluðu að því að draga úr matarsóun, en verðlaunin eru hluti af matarsóunarverkefni UNEP Think.Eat.Save. Verkefnin þrjú eru frá Frakklandi, Mexíkó og Bretlandi og snúa öll að því að minnka matarsóun í skólum, en áætlað er að í Bretlandi einu sé árlega hent um 123.000 tonnum af mat úr skólamötuneytum. Verkefnið What The Food fékk fyrstu verðlaun, en franskir nemendur unnu þar að uppsetningu á appi sem auðveldar nemendum að skipuleggja hádegismatinn sinn um leið og rekstraraðilum matsölustaða og mötuneyta er gert auðvelda fyrir að skipuleggja starf sitt. Mexíkóska verkefnið sem var í öðru sæti snerist um að auka vitund nemenda sem leifðu mat með því að gefa þeim færi á að rækta sitt eigið grænmeti á skólalóðinni. Í þriðja sæti var verkefnið Eat My Words en þar vann hópur nemenda að skapandi leiðum til að miðla upplýsingum um umsvif og áhrif matarsóunar til breskra nemenda. Um 470 skólar í 80 löndum tóku þátt í verkefninu.
(Sjá frétt UNEP í dag).

Grænt hagkerfi skilar miklu í þjóðarbúið

viewimageInnleiðing græns hagkerfis í Kenýa gæti bætt þjóðarhag um 45 milljarða Bandaríkjadala (um 5.000 milljarða ísl. kr.) fram til ársins 2030. Jafnframt myndi fæðuöryggi aukast, ástand umhverfismála batna og þjóðin verða betur í stakk búin til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Þetta kemur fram í nýrri matsskýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNEP). Í skýrslunni eru bornar saman tvær sviðsmyndir, annars vegar ef 2% af vergri landsframleiðslu yrðu notuð í grænar fjárfestingar og hins vegar ef þessi 2% yrðu lögð í sams konar fjárfestingar og gert er í dag (e. business-as-usual). Niðurstaðan er sú að árið 2030 muni áherslan á grænt hagkerfi skila 12% hærri landsframleiðslu en hin sviðsmyndin og að landsframleiðsla á hvern íbúa muni nær tvöfaldast. Þá muni losun gróðurhúsalofttegunda verða 9% minni en ella, uppskera á hvern hektara 15% meiri og aðgangur að rafmagni betri.
(Sjá frétt UNEP í gær).

Brýnt að stórbæta nýtingu málma

Metals UNEPGera þarf stórátak í bættri nýtingu og endurvinnslu til að komast hjá alvarlegum skorti á sjaldgæfum málmum, en búast má við að eftirspurn eftir málmum eigi jafnvel eftir að tífaldast. Sérstaklega er mikilvægt að hönnun raf- og rafeindatækja auðveldi endurnotkun og endurvinnslu einstakra íhluta, en í slíkum tækjum er mikið magn dýrmætra málma í örlitlu magni. Þannig getur venjulegur farsími innihaldið yfir 40 tegundir málma, allt frá algengum málmum á borð við kopar upp í vandfengna málma á borð við gull og palladíum. Árlega fleygir hver jarðarbúi 3-7 kg. af raf- og rafeindatækjaúrgangi, þannig að þarna eru gríðarleg tækifæri til úrbóta. Í nýrri skýrslu sérfræðingahóps á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) kemur fram að af 60 málmum hafi aðeins 20 náð 50% endurvinnsluhlutfalli og að endurvinnsluhlutfall 34 málmtegunda sé innan við 1%.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP 24. apríl).

Norðurheimskautssvæðið þarf meiri vernd

67948Umhverfissstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) telur þörf á að verja Norðurheimskautssvæðið betur en gert er gegn ágengni í náttúruauðlindir á borð við málma, olíu og gas, sem nú verða sífellt aðgengilegri samfara bráðnun heimskautsíssins. Að mati UNEP gegnir Norðurskautsráðið lykilhlutverki í að tryggja ábyrga umgengni um þessar auðlindir. Allar ákvarðanir um nýtingu þeirra verði að byggja á mati á áhrifum nýtingarinnar á vistkerfi og stofna.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Hálfmaraþon í tilefni af andlitslyftingu UNEP

Women's-Half-Marathon-runnersNæstkomandi sunnudag stendur Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) fyrir keppni í hálfmaraþoni í Nairóbí, höfuðborg Kenýa, þar sem aðalstöðvar UNEP eru staðsettar. Hlaupið er haldið í tilefni 27. aðalfundar UNEP, þeim fyrsta eftir að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti þá grundvallarbreytingu sem lögð var til á ráðstefnunni Ríó+20 á síðasta ári, að stjórn UNEP skyldi opin fulltrúum allra aðildarríkja. Aðalfundurinn er því í reynd orðinn að alheimsfundi leiðtoga þjóða heims um umhverfismál. Fundurinn hefst í dag og stendur fram á föstudag. Það er von UNEP að sem flestir fundarmenn taki þátt í hlaupinu í framhaldi af aðalfundinum og hitti þar fyrir vaskan hóp heimamanna.
(Sjá umfjöllun um hlaupið á heimasíðu UNEP).

Spáð, snætt og sparað

ThinkEatSaveÍ fyrradag hleyptu stofnanir Sameinuðu þjóðanna af stokkunum nýju átaki til að draga úr sóun matvæla. Átakið, sem hefur yfirskriftina „Think.Eat.Save“, beinist fyrst og fremst að neytendum, smásölu og veitingastöðum, en í þessum síðustu þrepum matvælakeðjunnar er áætlað að árlega sé hent um 300 milljónum tonna af ætum mat, m.a. vegna þröngrar túlkunar dagstimpla, útlitskrafna og of stórra skammta. Liður í átakinu er að halda úti upplýsingagáttinni www.thinkeatsave.org með yfirliti yfir stöðu mála og helstu verkefni sem í gangi eru á hverjum tíma til að draga úr sóun matvæla. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO) standa fyrir átakinu í samvinnu við fleiri aðila. Að mati FAO tapast að jafnaði um þriðjungur allra matvæla sem framleidd eru í heiminum, árlega að verðmæti um 1 billjón Bandaríkjadala (um 130 þúsund milljarðar ísl. kr).
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP 22. janúar).

Loftslagsáhrif svarts kolefnis tvöfalt meiri en talið var

utsläppSvart kolefni (sót) hefur tvöfalt meiri áhrif á loftslag en áður var talið og á meiri þátt í hlýnun jarðar en metan. Aðeins koltvísýringur skiptir meira máli í því sambandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem birt verður kl. 13:00 í dag og hefur að geyma niðurstöður úr fjögurra ára vísindarannsóknum. Sótið hefur mest áhrif til hlýnunar á Norðurheimskautssvæðinu, þar sem það dekkir ís og snjó og dregur úr endurkasti, en áhrif á úrkomu geta einnig verið töluverð, svo sem á Monsoon-svæðum. Tafarlausir aðgerðir til að draga úr losun sóts og annarra skammlífra loftslagsáhrifavalda eru samkvæmt þessu mun mikilvægari en áður var talið til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP í dag).