Glýfosat fannst í þvagi allra stjórnmálamanna í 25 manna hópi sem tekinn var til rannsóknar í tilefni af ráðstefnu um erfðabreyttar lífverur sem haldin var í Christiansborg í Kaupmannahöfn á dögunum. Meðalstyrkur efnisins var 0,89 ng/mg (nanógrömm efnis í milligrammi af þvagi) meðal þeirra sem tamið höfðu sér lífrænan lífsstíl en 1,45 ng/mg hjá þeim sem töldust hefðbundnir neytendur. Glýfosat, sem er m.a. virka efnið í plöntueitrinu Roundup, er flokkað sem krabbameinsvaldur, en engin leið er að segja til um hvort umræddur styrkur muni hafa áhrif á heilsu viðkomandi stjórnmálamanna. Niðurstöðurnar sýna hins vegar að efnið er orðið útbreitt í umhverfinu og í fæðukeðjunni, en vitað er að það er m.a. mjög skaðlegt fyrir vatnalífverur.
(Sjá frétt á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Danmerkur í dag).
Greinasafn fyrir merki: glyphosate
Fjöldamálsóknir vegna Roundup undirbúnar vestra
Lögfræðistofur víða um Bandaríkin safna nú liði fyrir fjöldamálsóknir gegn efnavörurisanum Monsanto á þeim forsendum að plöntueitrið Roundup sem fyrirtækið framleiðir hafi valdið krabbameini í sækjendum, þ.á.m. non-Hodgkin eitlafrumukrabba (NHL). Ætlunin er að sýna fram á það fyrir dómi að Monsanto hafi ranglega haldið því fram að virka efnið í Roundup (glýfosat) væri skaðlaust, þó að fyrirtækinu hafi þá þegar verið ljóst að það gæti valdið krabbameini. Málaferlin koma í kjölfar yfirlýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í marsmánuði síðastliðnum um að glýfosat væri líklegur krabbameinsvaldur. Roundup er notað um allan heim í landbúnaði og garðrækt og hefur skapað Monsanto tekjur upp á 4,8 milljarða dollara (um 600 milljarða ísl. kr.) á síðustu 12 mánuðum. Um þessar mundir stendur Monsanto einnig frammi fyrir a.m.k. 700 málsóknum vegna ásakana um að PCB sem fyrirtækið framleiddi á sínum tíma hafi valdið non-Hodgkin eitlafrumukrabbameini.
(Sjá frétt PlanetArk 16. október).
5.000 danskir garðeigendur hættir að eitra
Á síðustu fjórum mánuðum hafa um 5.000 garðeigendur í Danmörku hætt að nota Roundup og önnur eiturefni í garðræktinni og tilkynnt þátttöku sína í átakinu Eiturlausir garðar („Giftfri Have“), sem Náttúruverndarsamtök Danmerkur (DN) standa að í samvinnu við fleiri aðila. Tilkynning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á liðnu vori um að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini, hefur væntanlega ýtt undir þessa þróun, en frá því að þetta var upplýst hefur Roundup víða verið bannað eða fjarlægt úr búðarhillum. Þannig hefur sala efnisins til einkaaðila verið stöðvuð í Frakklandi og Hollandi og á Sri Lanka hefur verið komið á innflutningsbanni, auk þess sem þar hefur verið bannað að dreifa því glýfosati sem þegar hefur verið keypt. Þá hefur efnið verið tekið úr sölu í a.m.k. 1500-2000 verslunum í Sviss, Þýskalandi og Danmörku, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu DN 5. október).
Glyphosate tengt við brjóstakrabbamein
Plöntueitrið Glyphosate getur stuðlað að hormónaháðum krabbameinsvexti í brjóstum kvenna jafnvel þótt styrkur efnisins sé ekki hærri en oft gerist þar sem það er notað sem illgresiseyðir. Þetta kemur fram í grein í septemberhefti tímaritsins Food and Chemical Toxicology. Glyphosate er þekktast undir vörumerkinu Roundup. Efnið er mjög mikið notað í landbúnaði, ekki síst við ræktun erfðabreyttra sojabauna, nánar tiltekið svonefnds „Roundup ready“ afbrigðis. Áhrif efnisins á krabbameinsvöxt virðast magnast þar sem plöntuestrógenið genistein er einnig til staðar, en talsvert er einmitt af því efni í sojabaunum.
(Sjá grein í septemberhefti Food and Chemical Toxicology).
Illgresiseyðir í þvagi Evrópubúa
Leifar af plöntueitrinu glyphosate fundust í þvagi 44% sjálfboðaliða sem tóku þátt í nýlegri rannsókn sem gerð var fyrir samtökin Friends of the Earth Europe og náði til 18 Evrópulanda. Niðurstöðurnar voru nokkuð mismunandi eftir löndum. Þannig var hlutfall einstaklinga með glyphosate í þvagi hæst á Möltu eða 90%, en lægst í Búlgaríu og Makedóníu, 10%. Ekki er vitað hvernig glyphosate barst í líkama þátttakenda, en efnið er víða notað sem illgresiseyðir í landbúnaði, á opnum svæðum og í húsagörðum, oftast undir vörumerkinu Roundup.
(Sjá frétt á heimasíðu Global Research 13. júní).