Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).
Greinasafn fyrir merki: kvikasilfur
Vel heppnuð hreinsun í Oslóhöfn
Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).
Hættuleg efni í frárennslisvatni frá bergbroti
Frárennslisvatn frá bergbroti (e. fracking) getur innihaldið þungmálma á borð við kvikasilfur, króm og arsen, auk annarra skaðlegra efna, að því er fram kom nýlega í viðamikilli rannsókn Rice Háskólans í Bandaríkjunum. Styrkur efnanna er oft yfir löglegum mörkum fyrir drykkjarvatn, en málmarnir leysast úr berginu þegar vatninu er dælt niður. Um 50 lífræn efni fundust í vatninu, þ.á.m. krabbameinsvaldandi efni á borð við tólúen og etýlbensen. Halógenuð kolvetni fundust einnig í öllum sýnum, en þessi efni eru notuð til að hreinsa frárennslisvatn til að hægt sé að nota það aftur. Efnin geta skaðað lifur og taugakerfi. Hins vegar kom það á óvart að PAH-efni skyldu ekki greinast í vatninu, en slík efni er yfirleitt að finna í frárennslisvatni frá námu- og kolavinnslu. Rannsóknin undirstrikar þörfina fyrir auknar rannsóknir á umhverfisáhrifum bergbrots og mikilvægi hreinsunar og meðhöndlunar frárennslisvatns.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 19. febrúar).
Hormónaraskandi efni í öllum?
Kvikasilfur, kadmíum, kótínín og þalöt voru meðal þeirra efna sem fundust í 4.000 þvag- og hársýnum frá mæðrum og börnum þeirra í 17 Evrópulöndum sem tóku þátt í rannsókn sem sagt var frá á ráðstefnu á Kýpur í síðustu viku. Í 6 af þessum löndum var einnig leitað að bisfenól A, parabenum og tríklósan, og reyndust þessi efni einnig vera til staðar í sýnunum. Efnin eiga það sameiginlegt að vera hormónaraskandi og geta þannig átt þátt í margs konar alvarlegum kvillum. Talsmenn efnaiðnaðarins telja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum þar sem styrkur efnanna hafi verið undir hættumörkum. Samtök um heilsufar almennings eru á öðru máli og benda á að þessi efni eigi ekki að vera til staðar í líkama fólks, auk þess sem áhrif þeirra til langs tíma kunni að vera vanmetin og of lítið sé vitað um samlegðaráhrif efnanna (kokkteiláhrif).
(Sjá frétt EurActive 26. október).