Tíðatappar sem fást í dönskum verslunum eru flestir lausir við hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar kann annað að gilda um tappa sem keyptir eru á netinu. Í úttekt Tænk voru 11 tegundir tíðatappa efnagreindar í leit að ilmefnum, glýfosati, lausum trefjum, klórleifum, formaldehýði og nónýlfenólefnum. Aðeins ein tegund (TAMPAX C Active Fresh) féll á prófinu, þar sem hún innihélt ilmefni og slík efni geta valdið ofnæmi. Í annari tegund fundust leifar af plöntueitrinu glýfosati, en magnið var svo lítið að það var ekki talið geta verið skaðlegt. Hinar tegundirnar níu voru lausar við umrædd efni. Tænk bendir á að Svansmerktir tíðatappar séu góður valkostur, en úrvalið af þeim er enn mjög takmarkað.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).
Greinasafn fyrir merki: glýfosat
Roundup skilgreint sem krabbameinsvaldur
Vinnueftirlit Danmerkur hefur sett hinn vinsæla illgresiseyði Roundup á lista yfir krabbameinsvaldandi efni í framhaldi af útkomu skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem fram kemur að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini. Um leið og efni hefur verið skilgreint sem krabbameinsvaldur aukast varúðarkröfur við notkun þess. Roundup er mest notaði illgresiseyðir í heimi og í Danmörku voru notuð 1.389 tonn af efninu árið 2013 í landbúnaði og við umhirðu garða. Eitlakrabbameinstilfellum hefur fjölgað verulega þarlendis síðustu áratugi og nú greinast rúmlega 1.000 Danir með sjúkdóminn árlega. Notkun Roundup hefur nú þegar verið bönnuð á Sri Lanka og í Kólumbíu og í Argentínu berjast læknar fyrir notkunarbanni. Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislyfjafræði við Háskóla Suður-Danmerkur (Syddansk Universitet), segir nauðsynlegt að draga úr notkun efnisins. Jafnframt verði þó að vera á varðbergi gagnvart því að enn hættulegri efni verði ekki tekin í notkun í staðinn.
(Sjá frétt TV2 28. maí).
Mikið glýfosat í brjóstamjólk
Styrkur illgresiseyðisins glýfosats í brjóstamjólk bandarískra kvenna er allt að 1.000 sinnum hærri en leyfilegur styrkur efnisins í drykkjarvatni innan Evrópusambandsins, að því er fram kemur í rannsókn sem bandarísku samtökin Moms Across America og Sustainable Pulse stóðu nýlega fyrir. Það að svo mikið af glýfosati mælist í mjólkinni bendir til að efnið safnist upp í líkamanum, en hingað til hefur því verið neitað bæði af eftirlitsyfirvöldum og líftæknigeiranum. Illgresiseyðar sem innihalda glýsofat eru þeir mest seldu í Bandaríkjunum, en þar má meðal annars nefna „Roundup“ sem framleitt er af Monsanto. Í rannsókninni voru einnig tekin sýni úr drykkjarvatni sem sýndu mun hærri styrk glýfosats en í Evrópu. Samtökin sem stóðu að rannsókninni vilja að notkun glýfosats á nytjaplöntur verði hætt.
(Sjá frétt ENN í dag).