Rafbílar losa mun minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en bensín- og dísilbílar þegar búið er að taka með í reikninginn alla losun sem verður við framleiðslu bílanna. Í Póllandi, þar sem stór hluti rafmagns er framleiddur með kolum, er munurinn 25% rafbílunum í hag, en 50% að meðaltali í Evrópu. Í Svíþjóð er munurinn um 85%, en þar er raforkuframleiðslan að miklu leyti óháð jarðefnaeldsneyti. Þetta kemur fram í nýrri lífsferilsgreiningu (LCA) sem vísindamenn við Vrije-háskólann í Belgíu unnu fyrir hugveituna Transport & Environment.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).
Greinasafn fyrir merki: Gróðurhúsalofttegundir
Skotar stefna að 66% samdrætti í losun fyrir árið 2032
Ríkisstjórn Skotlands kynnti á dögunum áform sín um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 66% fyrir árið 2032 frá því sem var 1990. Með þessu telja stjórnvöld að Skotland festi sig í sessi meðal fremstu þjóða heims í þessum efnum. Til að ná markmiðinu er ætlunin að gera orkugeirann óháðan kolefni, ná 80% hlutfalli í húshitun með kolefnissnauðum orkugjöfum, koma hlutfalli nýskráðra visthæfra fólksbíla og flutningabíla upp í 40%, endurheimta 250.000 hektara af votlendi og stækka skóga um a.m.k. 15.000 hektara á ári. Umhverfisverndarfólk fagnar þessum áformum en gagnrýnir að framkvæmdaáætlanir vanti, að gert sé ráð fyrir að kolefnisbinding sé hluti af lausninni þótt óvissa sé um árangur hennar og að ekki sé kveðið skýrt á um bann við bergbroti (e. fracking).
(Sjá frétt BBC 19. janúar).
Netflix í slæmum félagsskap
Netflix og Amazon eru í hópi þeirra þjónustuaðila á netinu sem nota hlutfallslega mest af kolum og öðru jarðefnaeldsneyti til að knýja starfsemi sína, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace um orkunotkun internetfyrirtækja (Clicking Clean). Apple, Google og Facebook eru hins vegar í hópi þeirra netfyrirtækja sem komin er lengst í að nota eingöngu endurnýjanlega orku. Upplýsingatæknigeirinn notaði um 7% of allri raforku sem framleidd var í heiminum árið 2012 og er búist við að þessi tala fari jafnvel yfir 12% á árinu 2017. Streymi myndefnis vegur þyngst í þessum efnum. Hlutur þess í netumferð var 63% árið 2015 og samkvæmt spám verður hann kominn í 80% árið 2020. Netfyrirtækin, og þá ekki síst þau sem dreifa myndefni, hafa því mikil áhrif á það hvernig orkumarkaður heimsins og þar með losun gróðurhúsalofttegunda mun þróast næstu ár.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 10. janúar).
Norska ríkið styrkir loftslagsverkefni sveitarfélaga
Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).
Eftirlit með bílaflotanum minnkar losun um 22%
Breski byggingarverktakinn J.Murphy & Sons hefur dregið úr losun fyrirtækisins um 22% með því að koma fyrir tækjabúnaði í bílaflotanum til að fylgjast með aksturshegðun ökumanna fyrirtækisins. Um 1.900 mælum var komið við í bílaflota fyrirtækisins og skráði búnaðurinn hraða, lausagang og ferðaleiðir. Eftir að mælingartímanum lauk voru niðurstöðurnar teknar saman og kynntar bílstjórum og þeim sýndar leiðir til hagkvæmari og öruggari aksturs. Aukin vitund bílstjóranna um áhrif akstursmynsturs á losun gróðurhúsalofttegunda, bensíneyðslu og öryggi hafði í för með sér þessa stórbættu nýtingu.
(Sjá frétt Planning & Building Control Today 15. febrúar).
Ólöglegt efni í 49 hárvörum
Efnaeftirlit Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) fann ólöglega lofttegund í 49 hárvörum á dönskum markaði sem stofnunin tók nýlega til athugunar. Í framhaldi af þessu hefur sala á þessum vörum verið bönnuð. Samtals voru skoðaðar 120 hárvörur sem seldar eru í úðabrúsum og fannst lofttegundin R152A (díflúoretan) í 49 þeirra. Bannað hefur verið að nota efnið í úðabrúsa í Danmörku allt frá árinu 2002, ekki þó vegna skaðlegra áhrifa á heilsu heldur vegna þess að R152A er öflug gróðurhúsalofttegund. Eitt framleiðslufyrirtækjanna sem um ræðir var kært til lögreglu þar sem Miljøstyrelsen hefur áður haft afskipti af fyrirtækinu vegna svipaðs máls.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsens 8. desember).
Toyota stefnir að 90% samdrætti í losun fyrir árið 2050
Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur kynnt áætlun um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá allri starfsemi sinni og framleiðsluvörum um 90% fyrir árið 2050. Áætlunin, sem gengur undir nafninu „Toyota Environmental Challenge 2050“, inniheldur sex meginmarkmið sem m.a. á að ná með stóraukinni áherslu á framleiðslu vetnisbíla, svo og með því að vetnisvæða framleiðslulínur fyrirtækisins. Toyota gerir ráð fyrir að framleiða um 30.000 vetnisbíla á ári frá og með árinu 2020. Sala á vetnisbílnum Toyota Mirai þykir lofa góðu, en hann var settur í markað í ágúst á þessu ári.
(Sjá frétt EDIE í dag).
BP viðurkennir tilvist óbrennanlegrar olíu
Spencer Dale, yfirhagfræðingur olíurisans BP, sagði í ræðu í London á dögunum að stór hluti af þekktum olíu-, gas- og kolabirgðum heimsins verði að liggja í jörðu um ókomin ár til að koma í veg fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda leiði til hitastigshækkunar umfram 2°C. Þetta er afdráttarlausasta yfirlýsingin af þessu tagi frá stóru olíufélögunum enn sem komið er. Í ræðunni vakti Spencer Dale sérstaklega athygli á að inn í þennan reikning væri hvorki búið að taka þær fjölmörgu lindir sem væru að finnast þessi misserin né allt það jarðefnaeldsneyti sem enn væri hvergi skráð sem slíkt. Aðilar á borð við Alþjóðabankann og G20-hópinn hafa lýst áhyggjum af fjárfestingum sem nú þegar kunni að vera strandaðar í olíuverkefnum sem aldrei muni skila arði.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Ríó fyrst til að uppfylla borgarstjórasamkomulagið
Ríó de Janeiro er fyrsta borgin sem nær að standa að öllu leyti við „Borgarstjórasamkomulagið“ (Compact of Mayors). Allar borgir heims geta gerst aðilar að samkomulaginu sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera borgirnar betur í stakk búnar til að takast á við loftslagsbreytingar. Borgaryfirvöld í Ríó hafa gengið frá metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, komið á skráningarkerfi fyrir losun og byggt upp kerfi til að fylgjast með loftslagstengdum áhættuþáttum í borginni. Þá hefur borgin sett sér markmið um 20% samdrátt í losun fyrir árið 2020, sem jafngildir samdrætti upp á 2,3 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum. Þá kynntu borgaryfirvöld í síðustu viku áform um að lýsa upp nýja 145 km hraðbraut með sólarorkuljósastaurum. Staurarnir þurfa um 2,8 GWst af raforku á ári og verða sjálfum sér nægir með hana. Þegar árangur borgaryfirvalda í Ríó var kynntur sagði borgarstjórinn Eduardo Paes m.a. að borgir gegndu lykilhlutverki í loftslagsmálum og væru í bestu aðstöðunni til að stuðla að raunverulegum breytingum.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Mikill umhverfislegur sparnaður hjá Adidas!
Á dögunum birti Adidas sjálfbærniskýrslu sína fyrir árið 2014. Þar kemur fram að á síðustu 6 árum hefur fyrirtækið náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmyndun og vatnsnotkun um rúmlega 20%. Fyrirtækið hefur ráðist í ýmis verkefni til að minnka vistspor sitt. Sem dæmi má nefna að á næstu árum verður allri notkun plastpoka í verslunum fyrirtækisins hætt. Þá er fyrirtækið farið að nýta plastrusl úr hafinu sem hráefni í endurunnið plastefni sem nýtist m.a. við framleiðslu á skóm. Dregið hefur verið úr losun gróðurhúsalofttegunda með bættri orkunýtingu og kolefnisjöfnun en verðlag og aðgengi að endurnýjanlegri orku standa enn í vegi fyrir frekari úrbótum. Vatnssparnaðurinn byggist einkum á tveimur atriðum, annars vegar svonefndri DryDye tækni við litun bómullar og hins vegar aukinni áherslu á notkun lífrænnar bómullar, sem er nú um 30% af allri bómull sem fyrirtækið notar.
(Sjá frétt EDIE í dag).