G20-ríkin moka fé í olíuiðnaðinn

offshore_sea_drilling_statoilG20-ríkin verja árlega um 452 milljörðum Bandaríkjadala (um 59.000 milljörðum ísl. kr.) í stuðning við kola-, olíu- og gasiðnaðinn, að því er fram kemur í nýrri skýrslu bresku hugveitunnar Overseas Development Institute. Í skýrslunni eru umrædd ríki gagnrýnd fyrir að fylgja ekki eigin stefnu í loftslagsmálum, en þau hafa öll heitið að vinna gegn loftslagsbreytingum. Stuðningur ríkjanna við jarðefnaeldsneytisgeirann er fjórfalt hærri en allir samanlagðir ríkisstyrkir þjóða heims til framleiðslu á endurnýjanlegri orku, svo sem í sólar- og vindorkuverum. Með afnámi styrkja til jarðefnaeldsneytisgeirans myndi skapast eðlilegt samkeppnisumhverfi á orkumarkaði, að því er fram kemur í skýrslunni.
(Sjá frétt EurActive 12. nóvember).

BP viðurkennir tilvist óbrennanlegrar olíu

29141Spencer Dale, yfirhagfræðingur olíurisans BP, sagði í ræðu í London á dögunum að stór hluti af þekktum olíu-, gas- og kolabirgðum heimsins verði að liggja í jörðu um ókomin ár til að koma í veg fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda leiði til hitastigshækkunar umfram 2°C. Þetta er afdráttarlausasta yfirlýsingin af þessu tagi frá stóru olíufélögunum enn sem komið er. Í ræðunni vakti Spencer Dale sérstaklega athygli á að inn í þennan reikning væri hvorki búið að taka þær fjölmörgu lindir sem væru að finnast þessi misserin né allt það jarðefnaeldsneyti sem enn væri hvergi skráð sem slíkt. Aðilar á borð við Alþjóðabankann og G20-hópinn hafa lýst áhyggjum af fjárfestingum sem nú þegar kunni að vera strandaðar í olíuverkefnum sem aldrei muni skila arði.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Styrkir til olíu- og gasvinnslu vinna gegn endurnýjanlegum orkugjöfum

fossil-fuel-bailoutRíkustu þjóðir heims (G20) eyða um 88 milljörðum bandaríkjadala (um 11.000 milljörðum ísl. kr.) í styrki til olíu- og gasvinnslu þrátt fyrir að ekki megi vinna nema hluta þess eldsneytis sem til staðar er í þekktum lindum ef takast á að sporna við loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í skýrslunni The fossil fuel bailout sem Overseas Development Institute (ODI) og Oil Change International (OCI) gáfu út á dögunum. Þar er einnig bent á að á tímum aukins kostnaðar við olíu- og gasvinnslu og lækkandi afurðaverðs haldi opinberir styrkir vinnslunni gangandi. Á sama tíma fari stofnkostnaður vegna endurnýjanlegra orkugjafa ört lækkandi og áhugi fjárfesta vaxandi. Fjárfesting einkageirans í endurnýjanlegri orku sé nú um 2,5 dollarar fyrir hvern dollar sem hið opinbera leggur í greinina, en aðeins um 1,3 dollarar á hvern dollar af opinberum styrkjum til framleiðslu á jarðefnaeldsneyti. Skýrsluhöfundar telja að afnám þeirra styrkja myndi vera stórt skref í þá átt að jafna samkeppnisstöðu greinanna.
(Sjá frétt EDIE í dag).