Amazon kynnir loftslagsmerki

Á dögunum hleypti vefverslunin Amazon af stokkunum nýju verkefni sem ætlað er að gera kaupendum auðveldara fyrir að velja vörur sem samræmast markmiðum í loftslagsmálum. Verkefnið nefnist „Climate Pledge Friendly“ (eða „Loftslagsviljavænt“ í mjög lauslegri íslenskri þýðingu). Með þessu verkefni er vakin sérstök athygli á umhverfisvottuðum vörum með því að auðkenna þær með merki verkefnisins. Til að byrja með spannar verkefnið rúmlega 40.000 vörur með 18 mismunandi umhverfismerki eða önnur merki af svipuðum toga, þ.á m. Norræna Svaninn og Umhverfismerki ESB. Í fyrstu verður verkefnið sýnilegt fyrir kaupendur í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi.
(Sjá frétt á heimasíðu Amazon 28. október).

Netflix í slæmum félagsskap

clickclean160Netflix og Amazon eru í hópi þeirra þjónustuaðila á netinu sem nota hlutfallslega mest af kolum og öðru jarðefnaeldsneyti til að knýja starfsemi sína, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace um orkunotkun internetfyrirtækja (Clicking Clean). Apple, Google og Facebook eru hins vegar í hópi þeirra netfyrirtækja sem komin er lengst í að nota eingöngu endurnýjanlega orku. Upplýsingatæknigeirinn notaði um 7% of allri raforku sem framleidd var í heiminum árið 2012 og er búist við að þessi tala fari jafnvel yfir 12% á árinu 2017. Streymi myndefnis vegur þyngst í þessum efnum. Hlutur þess í netumferð var 63% árið 2015 og samkvæmt spám verður hann kominn í 80% árið 2020. Netfyrirtækin, og þá ekki síst þau sem dreifa myndefni, hafa því mikil áhrif á það hvernig orkumarkaður heimsins og þar með losun gróðurhúsalofttegunda mun þróast næstu ár.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 10. janúar).

10% af víðernum jarðar eyðilögð á 25 árum

2020guardianwilderness3266-160x104Mannkynið hefur eytt 10% af víðernum jarðar á síðustu 25 árum að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum. Sérfræðingar óttast að með sama áframhaldi verði engin víðerni eftir óröskuð eftir 100 ár. Frá árinu 1993 hafa um 3,3 milljónir ferkílómetra af víðernum verið lagðir undir athafnir manna, en það samsvarar 33-földu flatarmáli Íslands. Um þriðjungur þessarar eyðingar hefur átt sér stað á Amazonsvæðinu og 14% í miðhluta Afríku, þar sem m.a. var að finna þúsundir tegunda af lífverum, þ.á m. skógarfíla og simpansa. Þessi þróun mála kemur ekki eingöngu hart niður á tegundum í útrýmingarhættu, heldur felur hún líka í sér mikla loftslagsógn þar sem gríðarlegt magn af kolefni losnar út í andrúmsloftið við eyðingu skóga. Víðerni eru í þessu samhengi skilgreind sem svæði sem eru „að miklu leyti ósnortin vistfræðilega“ og „að mestu laus við truflun af mannavöldum“.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

16.000 trjátegundir í Amazon

AmazonSamkvæmt nýrri samantekt sem birtist á vefsíðu vísindatímaritsins Science í dag vaxa um 16.000 mismunandi trjátegundir í Amazonskóginum. Áætlað er að heildarfjöldi trjáa í skóginum sé um 390 milljarðar. Samantektin byggir á niðurstöðum 1.170 rannsókna sem gerðar hafa verið á skóginum, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem tekst að búa til sæmilega heildarmynd af þessu einstæða lífríki.
(Sjá frétt The Guardian í dag).