Kjarnasamruni handan við hornið?

Vísindamenn við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) telja sig hafa fundið leið til að framleiða hagkvæma varmaorku með kjarnasamruna innan 15 ára. Árum saman hafa menn haft á orði að kjarnasamruni sé orkugjafi framtíðarinnar og að þannig muni það alltaf verða. Hugmyndin gengur sem fyrr út á að virkja orku sem losnar þegar tvær vetnisfrumeindir sameinast og verða að helíumfrumeind, en til að koma þessu efnaferli af stað þarf hitastig upp á nokkurhundruð milljón °C, sem er langt umfram það sem nokkurt fast efni þolir. Vísindamennirnir við MIT telja sig geta leyst þetta vandamál með ofurseglum sem byggjast á ofurleiðniefninu yttríum-baríum-koparoxíði (YBCO). Þessir seglar eiga að geta haldið glóheitu rafgasi (plasma) í lausu lofti þannig að það snerti aldrei veggi ofnsins sem samruninn á sér stað í. Stærð ofnsins getur þá verið lítið brot af því sem áður hefur verið talið mögulegt og orkan sem fæst út úr ferlinu á geta verið u.þ.b. tvöfalt meiri en orkan sem fer í að hita rafgasið. Vetni er eina efnið sem þarf í þessa orkuframleiðslu og geislamengun frá ferlinu er óveruleg.
(Sjá frétt The Guardian 9. mars).

Ný aðferð við rafgreiningu lofar góðu

bubble-news-web-160Vísindamenn við Ríkisháskólann í Washington (Washington State University (WSU)) hafa fundið nýja leið til að framleiða vetni með rafgreiningu vatns. Aðferðin byggir á því að nota nanóagnir úr kopar sem efnahvata í samspili við kóbalt, en hingað til hafa menn yfirleitt notað mun dýrari málma, svo sem platínu eða rúten. Nýja aðferðin er ekki einungis mun ódýrari en fyrri aðferðir, heldur skilar hún jafngóðum eða betri árangri í rafgreiningu. Þessi uppgötvun er talin geta flýtt fyrir þróun vetnisframleiðslu, sem er í senn fjárhagslega hagkvæm, umhverfisvæn og orkunýtin. Þetta kann því að vera mikilvægt framfaraskref í orkugeymslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt á heimasíðu WSU 25. október).

Kolding fær grænu innkaupaverðlaunin 2015

indkoeb-foto_1170x400 (160x65)Sveitarfélagið Kolding fékk dönsku grænu innkaupaverðlaunin 2015, en verðlaunin voru afhent sl. fimmtudag á ráðstefnunni Ryd stenene af vejen (ísl. „Hreinsið grjótið af götunni“) þar sem aðilar sem sjá um útboð og innkaup báru saman bækur sýnar. Verðlaunin fékk Kolding fyrir innkaup á vistvænum vetnisbílum og samstarf um uppsetningu áfyllingarstöðvar fyrir vetni. Þrír aðrir aðilar voru tilnefndir til verðlaunanna, þ.e.a.s. Hróarskelduhátíðin fyrir átak sitt til að gera hátíðina umhverfisvænni, skrifstofuvöruverslanirnar Lyreco fyrir að aðstoða viðskiptavini sína við sjálfbær innkaup og Kaupmannahafnarborg og flutningafyrirtækið Bryde & Sønner fyrir sjálfbærniáherslur í flutningaþjónustu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. nóvember).

Toyota stefnir að 90% samdrætti í losun fyrir árið 2050

2050 (160x113)Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur kynnt áætlun um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá allri starfsemi sinni og framleiðsluvörum um 90% fyrir árið 2050. Áætlunin, sem gengur undir nafninu „Toyota Environmental Challenge 2050“, inniheldur sex meginmarkmið sem m.a. á að ná með stóraukinni áherslu á framleiðslu vetnisbíla, svo og með því að vetnisvæða framleiðslulínur fyrirtækisins. Toyota gerir ráð fyrir að framleiða um 30.000 vetnisbíla á ári frá og með árinu 2020. Sala á vetnisbílnum Toyota Mirai þykir lofa góðu, en hann var settur í markað í ágúst á þessu ári.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Einkaleyfi Toyota á vetnisbílum opnuð öðrum

Toyota_160Japanski bílaframleiðandinn Toyota tilkynnti á dögunum að fyrirtækið hygðist gera 5.680 einkaleyfi sem tengjast þróun og framleiðslu vetnisbíla og efnarafala aðgengileg fyrir aðra framleiðendur. Tilkynningin kemur í framhaldi af kynningu fyrirtækisins á vetnisbílnum Toyota Mirai sem settur verður á markað á árinu. Með þessu fylgir Toyota í fótspor Tesla sem opnaði á síðasta ári einkaleyfi sín sem tengdust framleiðslu rafbíla. Með því að deila þessum upplýsingunum vill Toyota flýta fyrir þróun umhverfisvænna samgangna og hvetja um leið önnur bílafyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Samstarf innan greinarinnar er einnig mikilvægt til að tryggja að sömu innviðir henti sem flestum bílategundum. Samhliða þróun Mirai bílsins hefur Toyota stutt við uppbyggingu vetnisstöðva í Kaliforníu og í norðausturríkjum Bandaríkjanna.
(Sjá frétt EDIE 7. janúar).

Fyrsta vetnisstöðin við verslunarmiðstöð

SainsburySainsbury’s verslunarkeðjan mun síðar á þessu ári verða fyrsta fyrirtækið í Bretlandi sem kemur upp vetnisstöð fyrir viðskiptavini á bílastæði verslunarmiðstöðvar. Fjöldi vetnisbíla á götum Bretlands vex frá degi til dags og að sögn talsmanns Sainsbury’s er það sérstakt ánægjuefni að vera fyrstur til að bjóða viðskiptavinum upp á þjónustu af þessu tagi. Stöðin er hluti af verkefninu London Hydrogen Network Expansion (LHNE) sem er styrkt af ríkisstjórninni. Stjórnvöld í Bretlandi ákváðu nýlega að verja 11 milljónum sterlingspunda (tæplega 2,2 milljörðum ísl. kr.) til að byggja upp innviði fyrir vistvæn ökutæki í Bretlandi, þar af 7 milljónum punda í uppsetningu allt að 7 áfyllingarstöðva fyrir vetnisbíla.
(Sjá frétt EDIE 28. október).

Flöskuvatn úr útblæstri vetnisbíla

honda H2OVatn sem verður til við brennslu vetnis á vetnisbílum er nú sett á flöskur og selt undir merkjum bílaframleiðandans Honda. Fyrirtækið hefur framleitt vetnisbíla undir vörumerkinu FCX-Clarity síðan 2008 og er flöskuvatnið leið til að vekja athygli á hreinleika útblásturs frá bílunum og undirstrika um leið staðfestu fyrirtækisins í að minnka umhverfisáhrif starfseminnar. Vatnið verður í boði á starfsstöðvum fyrirtækisins og er það von Honda að nýja vörumerkið, H2O, muni auka umræður um vetnisbíla og umhverfislegan ávinning þeirra.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Honda setur upp vetnisstöð

Honda H2stodBílaframleiðandinn Honda hefur sett upp vetnisáfyllingarstöð við verksmiðjur sínar í Torrance í Kaliforníu. Þetta er liður í undirbúningi fyrirtækisins fyrir næstu kynslóð vetnisbíla, sem kynnt verður árið 2015 í Bandaríkjunum og Japan. Stöðin verður jafnframt sýnidæmi og prófunarstöð fyrir nýjan staðal í vetnisáfyllingu sem Honda vill að tekinn verði upp. Staðallinn nefnist MC Fill og byggir á 700 bara þrýstingi. Með þessari tækni á að vera hægt að stytta áfyllingartímann um allt að 45% frá því sem áður hefur þekkst, sem þýðir að það ætti ekki að taka meira en 3 mínútur að fylla geyma vetnisbíls við venjulegar aðstæður. Næsta kynslóð vetnisbíla frá Honda á að komast um 500 km á hverjum tanki og efnarafalarnir eiga að rúmast í venjulegu vélarrúmi.
(Sjá frétt Hybridcars.com 4. mars).

Ný tækni í vetnisframleiðslu

SkolpvetnisbunadurHópur vísindamanna undir stjórn Yat Li, aðstoðarprófessors í efnafræði við Háskólann í Santa Cruz í Kaliforníu, hefur þróað búnað sem framleiðir vetni úr fráveituvatni og sólarljósi með hjálp örvera en án utanaðkomandi orku. Hugmyndin byggir á samnýtingu tvenns konar efnarafala, sem báðir geta framleitt vetni einir og sér, en þurfa til þess vægan rafstraum. Búnaður Li og félaga hefur enn sem komið er aðeins verið prófaður í tilraunastofu, en nýtingarmöguleikarnir eru miklir ef takast má að þróa búnaðinn til nota í hreinsistöðvum fyrir fráveituvatn. Með þessu fæst ekki aðeins vetni án mikillar fyrirhafnar eða rekstrarkostnaðar, heldur brotna lífræn mengunarefni í fráveituvatninu niður í leiðinni.
(Sjá frétt Science Daily 10. október).

Gríðarleg verðlækkun vetnisbíla í augsýn

Toyota hydrogenFulltrúar bílaframleiðandans Toyota segjast hafa náð að lækka verð á efnarafölum fyrir vetnisbíla úr rúmlega milljón dollurum niður í 51.000 dollara (um 6,2 milljónir ísl. kr). Árið 2015 geti fyrirtækið boðið vetnisbíla á innan við 100.000 dollara (12,2 millj. ísl. kr.) og einhvern tímann á 3. áratug þessarar aldar muni Toyota selja tugþúsundir vetnisbíla á ári. Verðlækkunin byggist m.a. á því að tekist hefur að minnka magn platínu í hverjum efnarafali úr 100 g. í um 30 g. Heimsmarkaðsverð á hverju grammi er nú um 6.000 ísl. kr., þannig að platínuþörfin skiptir talsverðu máli fyrir heildarkostnaðinn. Gert er ráð fyrir enn meiri framförum á þessu sviði á næstunni vegna bættrar tækni við húðun. Einnig hefur tekist að lækka verð á vetniskútum verulega með breyttri efnisnotkun.
(Sjá frétt PlanetArk 11. október).