28% fjárfestinga Alþjóðabankans í loftslagsaðgerðir

world bankAlþjóðabankinn (World Bank) mun hér eftir láta 28% af fjárfestingum sínum renna til loftslagsverkefna, auk þess allar ákvarðanir um fjármögnun verkefna munu taka mið af loftslagsmálum. Alþjóðabankinn er stærsti aðilinn sem veitir fé til þróunarríkja og því getur þessi áherslubreyting haft gríðarleg áhrif á möguleika þróunarríkjanna til að sporna við loftslagsbreytingum. Þegar þessi áherslubreyting var kynnt sagði Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans m.a.: „Við erum að bregðast skjótt við til að hjálpa löndum til að auka nýtingu endurnýjanlega orkugjafa, draga úr kolefnisháðum orkugjöfum, þróa sjálfbær samgöngukerfi og byggja sjálfbærar, íbúavænar borgir fyrir sífellt fleiri þéttbýlisbúa. Þróunarríkin vilja hjálp frá okkur við að hrinda landsáætlunum sínum í lofslagsmálum í framkvæmd og við ætlum að gera allt sem við getum til að hjálpa þeim“.
(Sjá frétt the Guardian 7. apríl).

BP viðurkennir tilvist óbrennanlegrar olíu

29141Spencer Dale, yfirhagfræðingur olíurisans BP, sagði í ræðu í London á dögunum að stór hluti af þekktum olíu-, gas- og kolabirgðum heimsins verði að liggja í jörðu um ókomin ár til að koma í veg fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda leiði til hitastigshækkunar umfram 2°C. Þetta er afdráttarlausasta yfirlýsingin af þessu tagi frá stóru olíufélögunum enn sem komið er. Í ræðunni vakti Spencer Dale sérstaklega athygli á að inn í þennan reikning væri hvorki búið að taka þær fjölmörgu lindir sem væru að finnast þessi misserin né allt það jarðefnaeldsneyti sem enn væri hvergi skráð sem slíkt. Aðilar á borð við Alþjóðabankann og G20-hópinn hafa lýst áhyggjum af fjárfestingum sem nú þegar kunni að vera strandaðar í olíuverkefnum sem aldrei muni skila arði.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Alþjóðabankinn og AGS leggja áherslu á úrbætur í loftslagsmálum

IMF ReuterChristine Lagarde forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og Jim Young Kim forseti Alþjóðabankans (AB) gáfu út sameiginlega yfirlýsingu við upphaf ársfundar stofnananna sem nú er að hefjast í Washington, þess efnis að loftslagsmál muni hér eftir vera forgangsverkefni hjá báðum stofnunum. Christine Lagarde sagði að aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda gætu styrkt hagkerfi þjóða verulega. Í því skyni þyrfti annars vegar að vinna að réttri verðlagningu kolefnis, og þar gæti IGS hjálpað til, og hins vegar að afnema niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti, en þær nema nú um 485 milljörðum dollara á ári. Kim Young Kim sagði að AB legði megináherslu á þrennt: Tryggja sjálfbæra orku í öllum löndum, styðja við kolefnislétt borgarskipulag og stuðla að kolefnisvænni þróun í landbúnaði. Samstilltar aðgerðir stofnananna tveggja gætu skipt miklu máli til að sporna gegn loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).