Toyota stefnir að 90% samdrætti í losun fyrir árið 2050

2050 (160x113)Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur kynnt áætlun um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá allri starfsemi sinni og framleiðsluvörum um 90% fyrir árið 2050. Áætlunin, sem gengur undir nafninu „Toyota Environmental Challenge 2050“, inniheldur sex meginmarkmið sem m.a. á að ná með stóraukinni áherslu á framleiðslu vetnisbíla, svo og með því að vetnisvæða framleiðslulínur fyrirtækisins. Toyota gerir ráð fyrir að framleiða um 30.000 vetnisbíla á ári frá og með árinu 2020. Sala á vetnisbílnum Toyota Mirai þykir lofa góðu, en hann var settur í markað í ágúst á þessu ári.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Einkaleyfi Toyota á vetnisbílum opnuð öðrum

Toyota_160Japanski bílaframleiðandinn Toyota tilkynnti á dögunum að fyrirtækið hygðist gera 5.680 einkaleyfi sem tengjast þróun og framleiðslu vetnisbíla og efnarafala aðgengileg fyrir aðra framleiðendur. Tilkynningin kemur í framhaldi af kynningu fyrirtækisins á vetnisbílnum Toyota Mirai sem settur verður á markað á árinu. Með þessu fylgir Toyota í fótspor Tesla sem opnaði á síðasta ári einkaleyfi sín sem tengdust framleiðslu rafbíla. Með því að deila þessum upplýsingunum vill Toyota flýta fyrir þróun umhverfisvænna samgangna og hvetja um leið önnur bílafyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Samstarf innan greinarinnar er einnig mikilvægt til að tryggja að sömu innviðir henti sem flestum bílategundum. Samhliða þróun Mirai bílsins hefur Toyota stutt við uppbyggingu vetnisstöðva í Kaliforníu og í norðausturríkjum Bandaríkjanna.
(Sjá frétt EDIE 7. janúar).

Gríðarleg verðlækkun vetnisbíla í augsýn

Toyota hydrogenFulltrúar bílaframleiðandans Toyota segjast hafa náð að lækka verð á efnarafölum fyrir vetnisbíla úr rúmlega milljón dollurum niður í 51.000 dollara (um 6,2 milljónir ísl. kr). Árið 2015 geti fyrirtækið boðið vetnisbíla á innan við 100.000 dollara (12,2 millj. ísl. kr.) og einhvern tímann á 3. áratug þessarar aldar muni Toyota selja tugþúsundir vetnisbíla á ári. Verðlækkunin byggist m.a. á því að tekist hefur að minnka magn platínu í hverjum efnarafali úr 100 g. í um 30 g. Heimsmarkaðsverð á hverju grammi er nú um 6.000 ísl. kr., þannig að platínuþörfin skiptir talsverðu máli fyrir heildarkostnaðinn. Gert er ráð fyrir enn meiri framförum á þessu sviði á næstunni vegna bættrar tækni við húðun. Einnig hefur tekist að lækka verð á vetniskútum verulega með breyttri efnisnotkun.
(Sjá frétt PlanetArk 11. október).

Fimm milljón Toyota tvinnbílar seldir

Prius 2007Í marsmánuði seldi bílaframleiðandinn Toyota fimmmilljónasta tvinnbílinn frá því að slíkir bílar komu fyrst á markað árið 1997. Um 70% þessara bíla voru af gerðinni Toyota Prius, sem er enn sem komið er vinsælasti tvinnbíll sögunnar. Á síðasta ári seldi Toyota samtals 1,2 milljónir tvinnbíla á heimsvísu og hefur salan aldrei verið meiri. Þá voru tvinnbílar 17% allra bifreiða sem seldar voru í Japan.
(Sjá frétt PlanetArk 18. apríl).