Ríó de Janeiro er fyrsta borgin sem nær að standa að öllu leyti við „Borgarstjórasamkomulagið“ (Compact of Mayors). Allar borgir heims geta gerst aðilar að samkomulaginu sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera borgirnar betur í stakk búnar til að takast á við loftslagsbreytingar. Borgaryfirvöld í Ríó hafa gengið frá metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, komið á skráningarkerfi fyrir losun og byggt upp kerfi til að fylgjast með loftslagstengdum áhættuþáttum í borginni. Þá hefur borgin sett sér markmið um 20% samdrátt í losun fyrir árið 2020, sem jafngildir samdrætti upp á 2,3 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum. Þá kynntu borgaryfirvöld í síðustu viku áform um að lýsa upp nýja 145 km hraðbraut með sólarorkuljósastaurum. Staurarnir þurfa um 2,8 GWst af raforku á ári og verða sjálfum sér nægir með hana. Þegar árangur borgaryfirvalda í Ríó var kynntur sagði borgarstjórinn Eduardo Paes m.a. að borgir gegndu lykilhlutverki í loftslagsmálum og væru í bestu aðstöðunni til að stuðla að raunverulegum breytingum.
(Sjá frétt EDIE í dag).