Rafbílar mun loftslagvænni en dísilbílar

Rafbílar losa mun minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en bensín- og dísilbílar þegar búið er að taka með í reikninginn alla losun sem verður við framleiðslu bílanna. Í Póllandi, þar sem stór hluti rafmagns er framleiddur með kolum, er munurinn 25% rafbílunum í hag, en 50% að meðaltali í Evrópu. Í Svíþjóð er munurinn um 85%, en þar er raforkuframleiðslan að miklu leyti óháð jarðefnaeldsneyti. Þetta kemur fram í nýrri lífsferilsgreiningu (LCA) sem vísindamenn við Vrije-háskólann í Belgíu unnu fyrir hugveituna Transport & Environment.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Breytingar á virðisaukaskatti ýta undir aukna endurnotkun

lagaFjármálaráðuneyti Svíþjóðar kynnti á dögunum tillögu að breytingum á virðisaukaskatti sem miðar að því að lengja líftíma vöru m.a. með því að gera viðgerðir ódýrari. Aðgerðirnar eru í þremur liðum. Í fyrsta lagi er stefnt að því að lækka virðisaukskatt á minni háttar viðgerðum og fyrirbyggjandi viðhaldi úr 25% í 12% og lækka þar með kostnað vegna viðgerða á hjólum, skóm, fatnaði, leðurvörum, húsgögnum o.fl. Í öðru lagi á að veita skattafrádrátt vegna viðgerða á heimilistækjum á borð við þvottavélar, ísskápa, uppþvottavélar og eldavélar. Og í þriðja lagi fá minnstu fyrirtækin (með ársveltu undir 30.000 sænskum krónum (um 450.000 ísl.kr.)) undanþágu frá skilum á virðisaukaskatti. Þessar aðgerðir eiga að auðvelda neytendum að láta gera við bilaðar vörur í stað þess að kaupa nýjar, auk þess sem þær auðvelda smáfyrirtækjum að komast inn á markaðinn. Áformað er að breytingarnar taki gildi 1. júní 2017.
(Sjá fréttatilkynningu Regeriengskansliet 24. mars).

Líftími raftækja styttist með hverju ári

tvLíftími raftækja styttist með hverju árinu sem líður samkvæmt nýrri rannsókn frá Umhverfisstofnun Þýskalands. Bilanatíðni hefur aukist á sama tíma og tískustraumar og nýjar útgáfur stýra markaðnum og raftækjum er í auknum mæli skipt út þó að þau séu nýleg og vel nothæf. Þetta hefur í för með sér aukið álag á auðlindir heimsins og eykur umhverfisáhrif raftækjanna. Hlutfall stórra raftækja sem bila fyrstu 5 árin hækkaði úr 3,5% í 8,3% á árunum 2004-2013. Þrátt fyrir þetta eru neytendur ánægðir með endingu raftækja. Forstjóri Umhverfisstofnunar Þýskalands kallar eftir lögbundnum lágmarkskröfum um líftíma raftækja, merkingum sem sýna líftíma vörunnar og að lögð sé áhersla á að auðvelt sé að gera við vöruna og skipta út hlutum.
(Sjá frétt EurActiv 16. febrúar).

Líftími raftækja styttist

raftaeki_160Í rannsókn Umhverfisstofnunar Þýskalands á „skipulegri úreldingu“ (e. built-in obsolescence) kom í ljós að sífellt fleiri raftæki eru seld til að koma í stað gallaðrar vöru. Árið 2004 var aðeins um 3,5% seldra raftækja í Evrópu ætlað að koma í stað gallaðra vöru en árið 2012 var hlutfallið komið í 8,3%. Á sama tíma hefur hlutfall stórra heimilistækja sem bila á fyrstu fimm árunum hækkað úr 7% árið 2004 í 13% árið 2013. Þessar tölur benda til að gæði og endingartími raftækja séu á niðurleið og að hugsanlega leggi raftækjaframleiðendur áherslu á stuttan líftíma til þess að auka sölu. Styttingu á líftíma má einnig rekja til neysluvenju þar sem neytendur leggja sífellt meiri áherslu á að eiga nýjasta módelið. Þannig voru um 60% allra sjónvarpstækja sem skipt var út árið 2012 í góðu lagi. Stjórnvöld innan ESB hafa áhyggjur af óábyrgri auðlindanotkun og áhrifum hennar á umhverfið og eru að skoða möguleika á að skylda framleiðendur til að tryggja endingu og að hægt sé að gera við raftækin.
(Sjá frétt the Guardian 3. mars).