Ólympíuleikarnir í Ríó fá sjálfbærnivottun

Rio2016logoSl. miðvikudag fékk undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna í Ríó afhent skírteini sem staðfestir að leikarnir standist kröfur staðalsins ISO 20121 um sjálfbærni viðburða. Umræddur staðall var tekinn í notkun árið 2012 og voru Ólympíuleikarnir sem haldnir voru í London það ár fyrsti viðburðurinn sem fékk vottun skv. staðlinum. Staðallinn gerir ýmsar kröfur til þeirra sem standa fyrir viðburðum af þessu tagi. Til að fá vottun þarf að standast ítarlega óháða úttekt á fjölmörgum þáttum sem varða umhverfismál og samfélagsmál í tengslum við viðkomandi viðburð, svo sem hvað varðar úrgangsforvarnir, orkunotkun og álag á nærsamfélagið.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar 28. janúar).

Ríó fyrst til að uppfylla borgarstjórasamkomulagið

28874 (160x107)Ríó de Janeiro er fyrsta borgin sem nær að standa að öllu leyti við „Borgarstjórasamkomulagið“ (Compact of Mayors). Allar borgir heims geta gerst aðilar að samkomulaginu sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera borgirnar betur í stakk búnar til að takast á við loftslagsbreytingar. Borgaryfirvöld í Ríó hafa gengið frá metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, komið á skráningarkerfi fyrir losun og byggt upp kerfi til að fylgjast með loftslagstengdum áhættuþáttum í borginni. Þá hefur borgin sett sér markmið um 20% samdrátt í losun fyrir árið 2020, sem jafngildir samdrætti upp á 2,3 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum. Þá kynntu borgaryfirvöld í síðustu viku áform um að lýsa upp nýja 145 km hraðbraut með sólarorkuljósastaurum. Staurarnir þurfa um 2,8 GWst af raforku á ári og verða sjálfum sér nægir með hana. Þegar árangur borgaryfirvalda í Ríó var kynntur sagði borgarstjórinn Eduardo Paes m.a. að borgir gegndu lykilhlutverki í loftslagsmálum og væru í bestu aðstöðunni til að stuðla að raunverulegum breytingum.
(Sjá frétt EDIE í dag).