Rafbílar mun loftslagvænni en dísilbílar

Rafbílar losa mun minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en bensín- og dísilbílar þegar búið er að taka með í reikninginn alla losun sem verður við framleiðslu bílanna. Í Póllandi, þar sem stór hluti rafmagns er framleiddur með kolum, er munurinn 25% rafbílunum í hag, en 50% að meðaltali í Evrópu. Í Svíþjóð er munurinn um 85%, en þar er raforkuframleiðslan að miklu leyti óháð jarðefnaeldsneyti. Þetta kemur fram í nýrri lífsferilsgreiningu (LCA) sem vísindamenn við Vrije-háskólann í Belgíu unnu fyrir hugveituna Transport & Environment.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Rafknúið rúgbrauð á markað 2022

Bílaframleiðandinn Volkswagen tilkynnti sl. laugardag að rafknúið „rúgbrauð“ verði sett á markað árið 2022, en margir hafa saknað þessa VW-sendiferðabíls sem oft er tengdur 68-kynslóðinni í hugum fólks. Hugmyndabíll af þessu tagi var sýndur á bílasýningunni í Detroit fyrr á þessu ári, en ákvörðun um framleiðslu lá ekki fyrir fyrr en á laugardaginn. Ákvörðunin var kynnt á samkomu í Monterey í Kaliforníu, en þar stóð vagga rúgbrauðsins og hippamenningarinnar að margra mati. Ekki liggja fyrir nákvæmar tækniupplýsingar um nýja rúgbrauðið, en hugmyndabíllinn sem kynntur var í Detroit var með 111 kwst rafhlöðu sem á að duga fyrir rúmlega 400 km akstur.
(Sjá frétt Business Insider í gær).

Hleðslustöðvar við allar nýjar íbúðir eftir 2019?

miev-160Gerð verður krafa um að settar verði upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla við allar nýjar og endurgerðar íbúðarbyggingar í löndum Evrópusambandsins frá og með árinu 2019 ef fyrirliggjandi frumvarp að tilskipun verður samþykkt. Tilgangurinn með þessu er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð, minnka loftmengun og ná loftslagsmarkmiðum.
(Sjá frétt ENN 11. október).

Áframhaldandi samdráttur í koltvísýringslosun nýrra bíla

image_xlargeEvrópskir fólksbílar verða sífellt sparneytnari að því er fram kemur í tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Fólksbílar sem skráðir voru á árinu 2015 í löndum ESB losuðu að meðaltali 119,6 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, sem er 3% minna en árið áður og vel undir markmiði ESB fyrir árið 2015 þar sem gert var ráð fyrir meðallosun upp á 130 g/km. ESB er nú tveimur árum á undan áætlun í þessum efnum, en næsta markmið er að meðallosun fari undir 95 g/km árið 2021. Við þetta má þó bæta að sala nýrra bíla jókst um 9% milli ára. Aðeins um 1,3% nýrra bíla voru tvinn- eða rafbílar en í einstökum löndum var hlutfallið mun hærra, t.d. 12% í Hollandi. Þrátt fyrir litla markaðshlutdeild fjölgaði nýjum rafbílum um 50% milli áranna 2014 og 2015.
(Sjá frétt Umhverfisstofnun Evrópu 14. apríl).

Rafbílar ódýrari en hefðbundnir bílar árið 2022

EVsRafbílar verða orðnir ódýrari en hefðbundnir bílar árið 2022 samkvæmt nýrri greiningu Bloomberg New Energy Finance (BNEF) á rafbílamarkaðnum. Stærsti einstaki liðurinn í að lækka verð á rafbílum er þróun ódýrarri rafhlaðna, en verð á litíum rafhlöðum hefur lækkað um 65% frá árinu 2010. Þrátt fyrir að eldsneytisnotkun bílaflotans minnki um 3,5% á ári munu ódýrari rafhlöður lækka kaupverð það mikið að bætt olíunýting hefðbundinna bíla mun ekki vega það upp. Rafbílavæðing er mikilvægur þáttur í að draga úr loftslagsbreytingum og bæta loftgæði, en þrátt fyrir ríkisstyrki er aðeins um 1% af seldum bílum í dag rafbílar. Samkvæmt greiningunni mun hlutfall nýrra rafbíla ekki ná yfir 5% fyrr en árið 2022 þegar þeir verða orðnir ódýrari kostur, en eftir það er líklegt að hlutfallið hækki mjög hratt. Samkvæmt greiningunni munu rafbílar verða 35% af seldum bílum árið 2040 og bílaflotinn þá orðinn 25% rafvæddur. Þessi þróun ráðist þó mjög af þróun á olíuverði.
(Sjá frétt the Guardian 25. febrúar).

Nissan Leaf umhverfisvænstur að mati Svía

IMG_7867 copyRafbíllinn Nissan Leaf er umhverfisvænsti bíllinn á sænskum markaði að mati dómnefndar samtakanna Gröna bilister. Samtals voru 35 tegundir bíla tilnefndar í tveimur flokkum, annars vegar sem besti bíllinn fyrir fólk með venjulegar tekjur og hins vegar sem besti fyrirtækjabíllinn. Nissan Leaf stóð uppi sem sigurvegari í báðum flokkum, en í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram að þetta sé mest seldi rafbíll í heimi, að drægni 2016-árgerðarinnar sé meira en áður og dugi nú í flestar ferðir, að bíllinn fái hæstu mögulegu einkunn fyrir öryggi og sé talsvert ódýrari en keppinautarnir. Í umsögn um fyrirtækjabíla kemur einnig fram að Nissan Leaf hafi meiri markaðslega þýðingu en flestir keppinautanna, þar sem hann sé auðþekktur frá hefðbundnum bílum. Þegar úrslitin voru kynnt minnti Johanna Grant, formaður Gröna bilister, á að umhverfisvænsti bílstjórinn sitji ekki alltaf í umhverfisvænsta bílnum, því að besti kosturinn sé að ferðast á hjóli eða í lest, sé þess kostur.
(Sjá fréttatilkynningu Gröna bilister 1. febrúar).

Fjórtán þúsund Svíar biðja um rafknúna leigubíla

Nollzon Eventbild 2 LowFyrirtæki með samtals um 14.000 starfsmenn hafa gerst aðilar að sænska verkefninu Nollzon, en aðildin felur í sér að rafbílar verða sjálfkrafa fyrir valinu þegar pantaðir eru leigubílar í nafni fyrirtækjanna. Tilgangurinn með Nollzon er að skapa aukna eftirspurn eftir rafbílum og flýta þannig fyrir rafvæðingu samgangna í samræmi við markmið sænskra stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislausan bílaflota árið 2030. Leigubílastöðvar eru farnar að finna fyrir þessari auknu eftirspurn og sem dæmi má nefna að hjá Taxi Stockholm eru nú 9 rafbílar í notkun.
(Sjá fréttatilkynningu Gröna Bilister 19. október).

Pepsi stórgræðir á umhverfisstarfinu

29087 (160x107)Aukin áhersla á umhverfismál hefur sparað gosdrykkjarisanum Pepsi rúmlega 375 milljónir sterlingspunda (rúmlega 72 milljarða ísl. kr.) frá því á árinu 2010. Sem dæmi um árangur má nefna að á árinu 2014 notaði Pepsi 23% minna vatn á hverja framleiðslueiningu en árið 2006 og á sama tíma batnaði orkunýting bílaflota fyrirtækisins um 16%, m.a. vegna fjölgunar ökutækja sem ganga fyrir rafmagni og lífeldsneyti. Þá  minnkaði umbúðanotkun fyrirtækisins um 40.000 tonn á milli áranna 2013 og 2014 og á sama tíma jókst notkun umbúða úr endurunnu efni um 23%. Að sögn Indra Nooyi, forstjóra Pepsi, er sjálfbærni ekki eitthvað sem fyrirtæki styrkja með hluta af hagnaði sínum, heldur stuðlar áhersla á sjálfbærni að auknum hagnaði. Þrátt fyrir þennan mikla árangur liggur Pepsi undir ámæli vegna óábyrgrar notkunar sinnar á pálmaolíu, en ætlunin mun vera að bæta þar úr fyrir árslok.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Flestir rafbílar skráðir í Bandaríkjunum

tesla_160Um 41% allra rafbíla í heiminum eru skráðir í Bandaríkjunum, en ótrúleg aukning hefur verið í sölu slíkra bíla síðan Nissan Leaf og Chevrolet Volt voru settir á markað vestra árið 2010. Þá hefur drægni Tesla bílanna haft mikil áhrif á markaðinn og aukið trú fólks á getu rafbíla til að koma í staðinn fyrir hefðbundna bíla. Í árslok 2014 voru um 712.000 rafbílar skráðir í heiminum, þar af um 290.000 í Bandaríkjunum. Japan er í öðru sæti hvað þetta varðar og Kína í því þriðja. Markaðsgreiningar benda til að Bandaríkin muni leiða rafbílavæðinguna næstu 5 ár en eftir það er talið líklegt að Evrópa verði stærsti markaðurinn, þar sem stefnumótun Evrópuríkja er hagstæðari fyrir rafbílaeigendur, m.a. vegna kolefnisskatta og niðurgreiðslna fyrir vistvæna bíla.
(Sjá frétt ENN 21. apríl).

Tesla slær sölumet á fyrsta ársfjórðungi

tesla_160Rafbílaframleiðandinn Tesla setti sölumet á fyrsta ársfjórðungi 2015, en þá seldi fyrirtækið samtals 10.030 bíla. Þetta er 55% aukning frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Aukninguna má að mestu rekja til Tesla Model S sem hefur fengið frábærar viðtökur og hefur m.a. verið valinn bíll ársins tvö ár í röð af tímaritinu Consumer Reports. Um 25% af öllum nýskráðum rafbílum í Bandaríkjunum á fyrstu mánuðum ársins voru Model S. Mikil aukning varð almennt í sölu rafbíla á síðasta ári en um 320.000 rafbílar voru nýskráðir í heiminum árið 2014. Þetta eru um 43% af öllum rafbílum sem nú eru í umferð. Elon Musk, stofnandi Tesla, hefur tilkynnt að fyrirtækið muni kynna nýja vöru síðar í þessum mánuði og er frekari tilkynninga beðið með mikilli eftirvæntingu.
(Sjá frétt EDIE í dag).