Netflix í slæmum félagsskap

clickclean160Netflix og Amazon eru í hópi þeirra þjónustuaðila á netinu sem nota hlutfallslega mest af kolum og öðru jarðefnaeldsneyti til að knýja starfsemi sína, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace um orkunotkun internetfyrirtækja (Clicking Clean). Apple, Google og Facebook eru hins vegar í hópi þeirra netfyrirtækja sem komin er lengst í að nota eingöngu endurnýjanlega orku. Upplýsingatæknigeirinn notaði um 7% of allri raforku sem framleidd var í heiminum árið 2012 og er búist við að þessi tala fari jafnvel yfir 12% á árinu 2017. Streymi myndefnis vegur þyngst í þessum efnum. Hlutur þess í netumferð var 63% árið 2015 og samkvæmt spám verður hann kominn í 80% árið 2020. Netfyrirtækin, og þá ekki síst þau sem dreifa myndefni, hafa því mikil áhrif á það hvernig orkumarkaður heimsins og þar með losun gróðurhúsalofttegunda mun þróast næstu ár.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 10. janúar).

Enn fjárfestir Google í endurnýjanlegri orku

google_160Google tilkynnti í dag að fyrirtækið muni leggja 145 milljónir bandaríkjadala (um 17 milljarða ísl. kr.) í nýtt 82 MW sólarorkuver í Kaliforníu, en þetta mun vera sautjánda fjárfesting fyrirtækisins í endurnýjanlegri orku frá árinu 2010. Um er að ræða uppsetningu á sólarrafhlöðum á um 300 hektara landsvæði í Kernsýslu þar sem áður var olíu- og gasvinnsla og mun verið geta séð um 10.000 heimilum í Kaliforníu fyrir raforku. Um 35% af allri orkunotkun Google er nú af endurnýjanlegum uppruna.
(Sjá frétt EDIE í dag).