Aukin samnýting bíla í London

car_share_160Á dögunum var kynnt ný áætlun um aukna samnýtingu bílaflotans í London, en þar er stefnt að því að milljón borgarbúar verði orðnir aðilar að samnýtingar- eða samakstursfélögum fyrir árið 2025. Í aðgerðaráætluninni, sem gengur undir nafninu Car Club Action Plan, er lögð áhersla á að deilihagkerfið verði haft í huga við þróun samgangna í borginni, en í dag deila um 145.000 Lundúnabúa bíl með öðrum eða notast við deilibíla. Sem dæmi um aðgerðir samkvæmt áætluninni má nefna bætt aðgengi að samnýtingarbílum með upplýsingatækni og aukinni nálægð við bílamiðstöðvar, fjölgun samnýtingarbílastæða og aukna áherslu á rafbíla innan félaganna. Samkvæmt rannsóknum RAC Foundation notar dæmigerður borgarbúi bílinn sinn aðeins um 4,6 klst á viku sem þýðir að bíllinn stendur ónotaður um 97% vikunnar á sama tíma og þrengsli og mengun í stórborgum eykst ört með stækkandi bílaflota. Með samnýtingu má fækka bílum og nýta hvern þeirra betur.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Samnýting sífellt vinsælli

fritidsbanken_160Það verður sífellt vinsælla að lána, skipta og deila með öðrum í staðinn fyrir að eiga hlutina einn og sjálfur, ef marka má frétt sænska ríkissjónvarpsins SVT. Stöðin birti nýlega fréttainnskot frá sænska bænum Deje, en þar er starfræktur sérstakur tómstundabanki sem lánar út ýmiss konar tómstundabúnað til íbúa bæjarins, þeim að kostnaðarlausu. Íbúar gefa til bankans ýmsan búnað sem annars á það til að safnast upp í bílskúrum, svo sem skauta og skíði. Samnýting af ýmsu tagi verður sífellt vinsælli og í löndum á borð við Svíþjóð, Holland, Bandaríkin og England hafa fatabankar, samkeyrsla, verkfærabankar og íbúðaskipti mjög rutt sér til rúms. Ýmis viðskiptatækifæri geta leynst í þessu samnýtingarhagkerfi (deilihagkerfi) eins og sjá má m.a. á skjótum uppgangi og ábatasömum rekstri vefsíðunnar Airbnb.
(Sjá frétt SVT í dag).