Milljón plastagnir í hverri flösku

150826102034_1_540x360Ýmsar snyrtivörur innihalda gríðarlegt magn plastagna (míkróplasts) sem bætt er í vöruna sem fylliefni eða til að gefa henni skröpunareiginleika. Í rannsókn vísindamanna við háskólann í Plymouth kom í ljós að einn skammtur af snyrtivörum, t.d. skrúbbkremi fyrir andlit, getur innihaldið allt að 100.000 plastagnir. Þessar agnir eiga greiða leið í gegnum fráveitukerfi og út í umhverfið, þar sem þær safnast fyrir og geta valdið lífríkinu verulegum skaða. Talið er að allt að 80 tonn af slíku plasti berist til hafs á ári hverju í Bretlandi einu. Vitað er um 80 tegundir af húðvörum og snyrtivörum á breskum markaði sem innihalda plastagnir, þ.á.m. handsápur, tannkrem, rakkrem, freyðiböð, sólarvörn og sjampó. Með því að nota rafeindasmásjá töldu vísindamennirnir 137.000 til 2,8 milljónir plastagna í 150 ml. skammti af þessum vörum. Nokkrir framleiðendur hafa heitið því að hætta að bæta plastögnum í vörurnar sínar, en hægt virðist miða í því.
(Sjá frétt Science Daily í gær).

Parabenar í fimmta hverju tannkremi

Tandkrem IMSÍ nýrri könnun dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu kom í ljós að 11 tannkremstegundir af 57 sem skoðaðar voru, innihéldu parabena sem taldir eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Parabenar hafa verið notaðir sem rotvarnarefni í ýmsar snyrtivörur, en óleyfilegt er að nota nokkra þeirra í snyrtivörur fyrir börn undir þriggja ára aldri. Tvær tannkremstegundir innihéldu parabena af þessum bannlista, þ.e.a.s. Viofluor Mint Gel og Sensodyne Rapid. Til að forðast parabena í tannkremi er ráðlegt að kaupa Svansmerkt tannkrem eða lesa innihaldslýsinguna vandlega áður en kaupin eru gerð.
(Sjá frétt á forbrugerkemi.dk 4. janúar).

Triclosan finnst enn í tannkremi

Tannkrem IMSTvær af 57 tannkremstegundum sem Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu skoðaði nýlega reyndust innihalda tríklósan. Efnið er bakteríudrepandi, en jafnframt hormónaraskandi og skaðlegt umhverfinu. Tannkremstegundirnar sem um ræðir eru Colgate Total Original og Colgate Total Advanced Whitening, en þessar sömu tegundir voru jafnframt þær einu sem reyndust innihalda tríklósan í sambærilegri könnun sem gerð var 2008. Þá þegar vissu menn sitthvað um skaðsemi efnisins, en fleira hefur bæst við síðan. Þannig leikur grunur á að efnið stuðli að vexti ónæmra baktería.
(Sjá frétt á forbrugerkemi.dk 12. desember).

Varasöm efni í tannkremi fyrir börn

Í nýlegri danskri rannsókn reyndist aðeins ein af 15 tegundum tannkrems fyrir börn laus við efni sem geta verið skaðleg umhverfi eða heilsu. Eina tegundin sem stóðst prófið var Viofluor barnatannkrem með jarðarberjabragði. Þrettán tegundir innihéldu efni sem geta verið skaðleg fyrir vatnalífverur og í fjórum tegundum fundust efni sem talin eru geta valdið heilsutjóni. Ekkert kom fram sem benti til að tannkrem fyrir börn innihéldi minna af varasömum efnum en tannkrem fyrir fullorðna. Þeir sem stóðu að rannsókninni mæla með því að tennur barna sé burstaðar með Svansmerktu tannkremi, en ekkert barnatannkrem hefur enn fengið slíka vottun.
(Sjá frétt forbrugerkemi.dk 19. október).