Matarsóun í breskum stórmörkuðum hefur minnkað um 20.000 tonn á einu ári að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem WRAP tók saman fyrir bresku smásölusamtökin BRC. Þarna er um að ræða 10% samdrátt á einu ári, úr 200.000 tonnum í 180.000 tonn. Dagvöruverslanir bera aðeins ábyrgð á rúmlega 1% af matarsóuninni í Bretlandi en þær eru í lykilaðstöðu til að hafa áhrif á sóun í aðfangakeðjunni, bæði meðal birgja og inni á heimilum. Sem dæmi um aðgerðir sem verslanirnar hafa gripið til má nefna að Tesco breytti verklagi í eigin bakaríum þannig að nú eru brauð bökuð oftar og færri í einu, Asda endurhannaði dagsetningar á matvælum til að sporna gegn misskilningi um endingartíma, Sainsbury’s þróaði aðferð til að nota matarúrgang til orkuframleiðslu og Marks & Spencer kom á kerfi til að dreifa afgöngum frá 150 stærstu verslunum keðjunnar til hjálparsamtaka um land allt.
(Sjá frétt EDIE í dag).