Milljarður fyrir endurunna málma úr líkbrennslum

Á einu ári hafa Svíar endurunnið rúm 30 tonn af málmum úr þarlendum líkbrennslum, að verðmæti samtals um 80 milljónir sænskra króna (um 1 milljarður ísl. kr.). Í júlí 2016 var endurvinnsla málmleifa úr líkbrennslum færð í lög og nú eru 53 af 56 líkbrennslum landsins orðnar aðilar að rammasamningi við fyrirtækið Fönix miljö AB. Fönix átti hagstæðasta tilboð í sameiginlegt útboð sænsku kirkjunnar og sér fyrirtækið nú um endurheimt málmanna samkvæmt samningnum. Fyrirtækið hefur m.a. þróað aðferð til að aðskilja lífrænar leifar úr brennslunni frá málmunum, þannig að hægt sé að ráðstafa þeim með viðeigandi hætti. Ágóðinn af endurvinnslunni rennur til Almenna erfðasjóðsins (Allmänna arvsfonden) í samræmi við ákvæði í lögunum.
(Sjá frétt á Recyclingnet.se 24. október).

Nanóagnir úr kolefni geta leyst sjaldgæfa málma af hólmi

Hægt er að nota grafen og aðra svipaða kolefnisbúta af nanóstærð í stað sjaldgæfra málma sem nú eru mikið notaðir í farsíma og ýmis önnur raftæki. Þetta er niðurstaða úr úttekt sem Rickard Arvidsson og Björn Sandén við Chalmersháskólann í Gautaborg hafa gert á fyrirliggjandi þekkingu á þessu sviði. Þeir félagar skoðuðu notkun 14 mismunandi málma og telja að hægt sé að nota kolefni í stað 13 þeirra, í það minnsta í mörgum tilvikum. Sjaldgæfir málmar eiga það sameiginlegt að finnast í litlu magni í jarðskorpunni og þess vegna stuðlar vinnsla þeirra að átökum um eignarhald og aðgang að auðlindinni. Þeir eru auk heldur erfiðir í endurvinnslu vegna þess hversu lítið magn af þeim er notað í hvern hlut. Hins vegar er til nóg af kolefni og úr því er hægt að vinna nanóagnir sem eru sterkar og góðir leiðarar, rétt eins og málmarnir. Slík efni mætti m.a.s. vinna úr lífmassa. Að mati Arvidsson og Sandén er stutt í að hægt verði að nota nanókolefni í stað málma á borð við indíum, gallíum, beryllíum og silfur. Gull var eini málmurinn af 14 sem hæpið var talið að skipta út fyrir kolefni.
(Sjá frétt á heimasíðu Chalmers 15. september).

Mikill kolefnissparnaður vegna endurvinnslu plasts og málma

recycling_160Losun gróðurhúsalofttegunda vegna úrgangsmeðhöndlunar sveitarfélaga í Bretlandi minnkaði um 4% á síðasta ári miðað við árið á undan, samkvæmt hinni árlegu skýrslu Recycling Carbon Index Report. Í skýrslunni kemur fram að 64% allra sveitarfélaga í Bretlandi hafi dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við úrgangsmeðhöndlun á síðasta ári þrátt fyrir að endurvinnsluhlutfall hafi ekki hækkað á sama tíma. Árangurinn er talinn stafa af því að tekist hafi að endurvinna meira af plasti og málmum en áður, en söfnun og efnisendurvinnsla þessara flokka hefur í för með sér mikinn kolefnissparnað. Þannig sparast 2,35 tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af málmum sem safnast og fer í endurvinnslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Fairphone gefur tóninn fyrir sjálfbæra snjallsíma

fairphone.jpg.662x0_q100_crop-scaleÍ þriðju útgáfu Fairphone farsímans er lögð áhersla á sjálfbæran uppruna málma, góð vinnuskilyrði og einfaldleika í viðgerðum. Þar með slær fyrirtækið tóninn fyrir umhverfisvæna snjallsíma. Mikið er lagt upp úr því að málmar sem notaðir eru í framleiðsluna séu ekki frá svæðum þar sem átök standa yfir vegna námuvinnslunnar. Reynt er að tryggja sanngjörn laun verkamanna í allri virðiskeðjunni og einnig hefur fyrirtækið sett upp sérstakt skilakerfi fyrir símana. Fyrirtækið iFixit hefur tekið að sér viðhald símanna. Sá samningur felur í sér að auðvelt er að panta varahluti, auk þess sem útbúin hefur verið viðgerðarhandbók sem auðveldar notendum að gera við helstu bilanir upp á eigin spýtur. Auðvelt er að taka snjallsímann í sundur og skipta um það sem bilar, en eins og margir þekkja er oft erfitt að nálgast varahluti fyrir snjallsíma og spjaldtölvur: Neytendum er þá gjarnan ráðlagt á að kaupa sér nýtt tæki frekar en að láta gera við það gamla.
(Sjá frétt Treehugger í gær).

Blýlaust bensín sannar mikilvægi sitt

3210440_2048_1152_160Styrkur blýs í líkömum sænskra barna hefur minnkað sexfalt frá árinu 1994 þegar blýlaust bensín komst í almenna notkun þarlendis. Þetta kemur fram í sænskri handbók um eiturefnafræði málma (Handbook on the Toxicology of Metals). Sænski eiturefnafræðingurinn Staffan Skerfving segir þróunina frá blýblönduðu bensíni vera dæmi um farsælt verkefni sem hefur bætt heilsufar íbúa. Þróunin hefur verið svipuð í öðrum löndum eftir að bannað var að blanda blýi í bensín. Blýið er lengi til staðar í umhverfinu, en Staffan telur að á þeim 20 árum sem liðin eru hafi stór hluti þess bundist í jarðvegi og hafi því sífellt minni áhrif á heilsu manna. Á síðustu árum hafa mörg þróunarríki einnig hætt notkun blýblandaðs bensíns og er talið að það sé nú einungis selt í sex ríkjum. Blý getur m.a. haft skaðleg áhrif á þróun heilastarfsemi hjá börnum.
(Sjá frétt Sveriges Radio 20. mars).

Brýnt að stórbæta nýtingu málma

Metals UNEPGera þarf stórátak í bættri nýtingu og endurvinnslu til að komast hjá alvarlegum skorti á sjaldgæfum málmum, en búast má við að eftirspurn eftir málmum eigi jafnvel eftir að tífaldast. Sérstaklega er mikilvægt að hönnun raf- og rafeindatækja auðveldi endurnotkun og endurvinnslu einstakra íhluta, en í slíkum tækjum er mikið magn dýrmætra málma í örlitlu magni. Þannig getur venjulegur farsími innihaldið yfir 40 tegundir málma, allt frá algengum málmum á borð við kopar upp í vandfengna málma á borð við gull og palladíum. Árlega fleygir hver jarðarbúi 3-7 kg. af raf- og rafeindatækjaúrgangi, þannig að þarna eru gríðarleg tækifæri til úrbóta. Í nýrri skýrslu sérfræðingahóps á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) kemur fram að af 60 málmum hafi aðeins 20 náð 50% endurvinnsluhlutfalli og að endurvinnsluhlutfall 34 málmtegunda sé innan við 1%.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP 24. apríl).