Bandaríska fyrirtækið Knowaste áformar að reisa sjö endurvinnslustöðvar fyrir rakadrægar hreinlætisvörur í Bretlandi á næstu fimm árum og hefur þegar sótt um leyfi fyrir fyrstu stöðinni sem áformað er að hefji rekstur í London snemma árs 2017. Með „rakadrægum hreinlætisvörum“ (e. Absorbent Hygiene Products (AHP)) er átt við vörur á borð við einnota bleyjur, buxnainnlegg og dömubindi. Árlega urða Bretar um milljón tonn af slíkum úrgangi, eða sem samsvarar 4-7% af öllum óflokkuðum heimilisúrgangi. Knowaste beitir nýrri tækni við endurvinnsluna, þar sem úrgangurinn er tættur, sótthreinsaður, þurrkaður og aðskilinn í plast, trefjar og aðskotaefni. Plastið nýtist sem hráefni í framleiðslu á nýjum plastvörum og úr trefjunum má m.a. framleiða undirburð fyrir gæludýr. Stöðin í London á að geta tekið við 36.000 tonnum af úrgangi á ári og er reiknað með að nýtingarhlutfallið verði rúmlega 97%. Stofnkostnaður stöðvarinnar verður um 14 milljónir sterlingspunda (tæplega 2,8 milljarðar ísl. kr.).
(Sjá frétt EDIE í dag).