Vistkerfi fjarða binda mikið kolefni

fjords_160Vistkerfi fjarða binda um 11% af öllu því kolefni sem binst í hafinu samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Otago á Nýja-Sjálandi á setlögum í fjörðum. Firðir gegna þannig mjög mikilvægu hlutverki í loftslagsstjórnun og er talið að árlega séu um 18 milljón tonn af lífrænu kolefni grafin í seti fjarða. Firðir þekja aðeins um 0,1% af yfirborði sjávar og er því geta þeirra til kolefnisbindingar mun meiri en annarra hafsvæða. Þar sem firðir eru djúpir og oft tiltölulega súrefnissnauðir eru þeir mjög stöðugir geymslustaðir fyrir kolefnisríkt set. Kolefnisbinding í seti er mjög mikilvæg vistkerfaþjónusta sem getur dregið verulega úr sveiflum í magni koltvísýrings í andrúmslofti og þannig haft áhrif á þróun loftslags jarðar. Einnig er kolefnisbinding í setlögum mjög varanleg, þar sem geymslan getur dugað í þúsundir ára.
(Sjá frétt Science Daily 4. maí).

 

Afísingarefni spilla jarðvegi og grunnvatni við flugvelli

flugvollur_160Efni á borð við própýlenglýkól og kalíumformat sem notuð eru við afísingu flugvéla og flugbrauta spilla jarðvegi og grunnvatni í nánd við flugvelli. Áhrifanna gætir helst á vorin þegar snjóa leysir en þá berst mikið af efnunum út í jarðveginn. Efnin brotna niður í jarðvegi með hjálp örvera, en örverurnar nota mikið súrefni og því er jarðvegur og vatn í kringum flugvelli mjög súrefnissnautt. Starfsemi í slíkum jarðvegi er lítil og því gerir hann lítið gagn við síun vatns og aðra vistkerfaþjónustu sem jarðvegur veitir alla jafna. Í skýrslu jarðvísindadeildar Friedrich Schiller University Jena um þessi áhrif eru taldar upp leiðir til að draga úr skaðsemi afísingarefnis, svo sem með því að stjórna flæði þess í jarðveg í leysingum, dæla súrefni í jarðveginn og koma efnunum í snertingu við örverur áður en þau sleppa út í náttúruna. Skýrslan er byggð á rannsókn sem gerð var á alþjóða flugvellinum í Osló, sem staðsettur er nærri vatnsbóli borgarbúa.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Þolmörk fjögurra lykilkerfa jarðar yfirstigin

Planet BoundariesMannkynið er komið út fyrir þolmörk jarðar á fjórum sviðum af níu sem skilgreind hafa verið, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Science. Sviðin fjögur sem um ræðir eru líffræðileg fjölbreytni, loftslagsbreytingar, eyðing skóga og lífjarðefnafræðileg ferli (hringrás fosfórs og köfnunarefnis). Þegar farið er yfir þolmörkin aukast líkur á óafturkræfum skemmdum á vistkerfum jarðar með þeim afleiðingum að jörðin verður mun verri dvalarstaður fyrir fólk en áður. Þolmörkin voru skilgreind af vísindamönnum árið 2009 til að auðvelda stjórnvöldum að átta sig á ástandi jarðarinnar og forgangsraða stefnumótun eftir ástandi hvers þáttar um sig. Þeir fimm þættir sem enn eru innan marka eru eyðing ósonlagsins, súrnun sjávar, notkun ferskvatns, úði í andrúmslofti (e. atmospheric aerosol) og efnamengun.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 16. apríl).

Hlýnun sjávar dregur úr afla í Norðursjó

fishing_northsea_160Draga mun úr þéttleika og stærð mikilvægra nytjastofna í Norðursjó í takt við hækkandi hitastig í sjónum, ef marka má rannsókn Háskólans í Exeter á þróun ýsu, kola og þykkvalúru í breskri lögsögu. Fram kemur í rannsókninni að hlýnunin í Norðursjó hafi verið um fjórfalt meiri en meðalhlýnun heimshafanna síðustu 40 ár. Ýsa, koli og lúra eru einna algengustu fisktegundirnar á matardiskum Breta, en þær eiga það sameiginlegt að kjósa búsvæði í köldum sjó á allmiklu dýpi. Þegar hitastig hækkar leita þessar tegundir á kaldari svæði, en vísindamenn telja að dýpt sjávar á nærliggjandi og norðlægari svæðum sé minni en svo að þessar tegundir ná að aðlaðast búsvæðum þar. Þær séu þannig í raun innikróaðar og þess vegna muni draga úr þéttleika og stærð stofnanna á næstu árum.
(Sjá frétt Science Daily 13. apríl).

Grænmeti framleitt á þökum

vegetables_160Hægt væri að framleiða um 75% af öllu grænmeti sem neytt er í stórborgum innan borgarmarkanna samkvæmt raundæmarannsókn sem gerð var í Bologna á Ítalíu á árunum 2012 til 2014. Í rannsókninni kom fram að ef öll flöt þök í Bologna væru nýtt til ræktunar mætti framleiða þar um 12.500 tonn af grænmeti sem samsvarar um 77% af grænmetisneyslu borgarbúa. Þessi grænu þök myndu um leið bæta loftgæði í borginni, stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og fanga um 624 tonn af koltvísýringi árlega. Einnig gætu grænu þökin dregið úr hita- og hljóðmyndun og bætt þannig lífsskilyrði. Í raundæminu var ræktað salat, kál, kaffifífill, tómatar, eggaldin, eldpipar, melónur og vatnsmelónur og þrjár mismunandi ræktunaraðferðir skoðaðar til að finna út hvernig hægt væri að hámarka framleiðslu á litlum svæðum innan borgarmarkanna.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 26. mars).

Afli tvöfaldaður með sjálfbærum fiskveiðum

fishingUK_160Bretar gætu tvöfaldað sjávarafla sinn á næstu 10 árum ef kvótaheimildir ESB væru í takt við ráðgjöf rannsóknarstofnana. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá New Economics Foundation þar sem mælt er með lækkun kvótaheimilda fyrir ákveðna stofna sem hafa verið ofveiddir, þannig að stofnarnir geti náð sér. Með þessu móti gæti breski fiskveiðiflotinn aukið afla sinn úr 560 milljónum tonna í 1.100 milljónir með tilheyrandi aukningu í tekjum og fjölgun starfa. Menn eru hins vegar tregir til að minnka kvótann, þar sem það getur haft mikil áhrif á efnahaginn til skamms tíma. Kvótarnir eru ákveðnir með tilliti til sögu fiskveiða og stærðar fiskveiðiflota í hverju landi, en sjávarútvegsráðherrum ESB ber engin skylda til að taka tillit til sjálfbærrar auðlindanýtingu til að koma í veg fyrir ofveiði. Endurbætur á kvótakerfi ESB eru þó á döfinni á næstu 5 árum þar sem lögð verður áhersla á að kvóti sé ákveðinn út frá sjálfbærum hámarksafla.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Lúsalyf ógnar lífríki sjávar

salmon_160Lúsalyf sem notuð eru í fiskeldi ógna lífrríki sjávar á nærliggjandi svæðum samkvæmt nýrri norskri rannsókn. Í rannsókninni kom fram að styrkur lúsalyfsins teflúbensúróns í grennd við laxeldisstöðvar getur verið nógu hár til að drepa vissar tegundir krabbadýra, rækju og humars, en efnið hefur áhrif á myndun kítíns sem er uppbyggingarefnið í skeljum slíkra dýra. Í rannsókninni var lax í eldisstöð, þar sem teflúbensúrón hafði ekki verið notað áður, meðhöndlaður með lyfinu í 7 daga og síðan fylgst með seti, vatni og lífríki nálægt stöðinni næstu tvær vikur, auk stakra mælinga nokkrum mánuðum síðar. Mælingarnar sýndu að helmingunartími teflúbensúróns í seti er um 170 dagar, en styrkur efnisins var þó kominn niður fyrir hættumörk strax um tveimur vikum eftir meðferð. Styrkurinn í krabbadýrum og fiski frá nálægum svæðum reyndist ekki svo hár að hættulegt sé talið fyrir menn að neyta sjávarfangsins.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 26. febrúar).

Rusl í hafi þrengir að lífríkinu

marine_debris_160Um 700 tegundir lífvera hafa orðið fyrir áhrifum af rusli í hafinu samkvæmt nýrri rannsókn sem Háskólinn í Plymouth kynnti á dögunum. Í rannsókninni var farið yfir tiltækar upplýsingar um lífverur sem hafa orðið fyrir barðinu á úrgangi í sjónum og fundust í þeirri leit heimildir um 44.000 lífverur sem flækst höfðu í rusli eða gleypt það. Um 92% af þessu rusli var plast, en algengt er að sjávarspendýr og fuglar flækist í plastreipum og fiskinetum eða gleypi plasteindir. Um 17% af umræddum tegundum reyndust vera á heimsválista IUCN yfir tegundir í útrýmingarhættu, þ.á m. Hawaii-munkaselurinn, Loggerhead sæskjaldbakan og gráskrofan. Aðstandendur rannsóknarinnar segja bein áhrif úrgangs á tegundir í útrýmingarhættu vera sérstakt áhyggjuefni, en þörf sé á auknum rannsóknum á áhrifum inntöku.
(Sjá frétt Science Daily 19. febrúar).

Hættuleg efni í frárennslisvatni frá bergbroti

fracking_160Frárennslisvatn frá bergbroti (e. fracking) getur innihaldið þungmálma á borð við kvikasilfur, króm og arsen, auk annarra skaðlegra efna, að því er fram kom nýlega í viðamikilli rannsókn Rice Háskólans í Bandaríkjunum. Styrkur efnanna er oft yfir löglegum mörkum fyrir drykkjarvatn, en málmarnir leysast úr berginu þegar vatninu er dælt niður. Um 50 lífræn efni fundust í vatninu, þ.á.m. krabbameinsvaldandi efni á borð við tólúen og etýlbensen. Halógenuð kolvetni fundust einnig í öllum sýnum, en þessi efni eru notuð til að hreinsa frárennslisvatn til að hægt sé að nota það aftur. Efnin geta skaðað lifur og taugakerfi. Hins vegar kom það á óvart að PAH-efni skyldu ekki greinast í vatninu, en slík efni er yfirleitt að finna í frárennslisvatni frá námu- og kolavinnslu. Rannsóknin undirstrikar þörfina fyrir auknar rannsóknir á umhverfisáhrifum bergbrots og mikilvægi hreinsunar og meðhöndlunar frárennslisvatns.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 19. febrúar).

Um 8 milljón tonn af plasti í hafið árlega

marinedebris_160Um 8 milljón tonn af plastúrgangi enda í hafinu á ári hverju samkvæmt nýrri rannsókn National Centre of Ecological Analysis and Synthesis (NCEAS), en hingað til hefum mönnum gengið illa að áætla hversu mikið magn væri þarna um að ræða. Í rannsókninni voru skoðaðar úrgangstölur frá 192 löndum og reiknað út frá þeim að 4,8-12,7 milljónir tonna af plasti hefðu borist á haf út árið 2010. Miðgildið var 8 milljón tonn. Plastrusl er orðið stórt vandamál fyrir vistkerfi sjávar, þar sem það getur kæft eða kyrkt sjávardýr, auk þess sem plastið getur ferjað eiturefni inn í fæðukeðjuna. Plastið í sjónum á m.a. uppruna sinn að rekja til illa rekinna opinna urðunarstaða og rangrar meðhöndlunar almennings á plastúrgangi. Aukin áhersla á úrgangsforvarnir og betri úrgangsstjórnun eru því lykilatriði í viðleitninni til að draga úr þessum vanda.
(Sjá frétt EDIE í dag).