Brýnt að draga úr botnvörpuveiðum

fiskaforframtiden-160Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen beina því til sænska stjórnvalda að banna botnvörpuveiðar innan 12 mílna landhelgi og gera sitt til að styðja við krókaveiðar og gildruveiðar. Þessar ráðleggingar eru settar fram í nýrri skýrslu samtakanna, Fiskum til framtíðar, þar sem fiskveiðiaðferðir Svía eru kortlagðar. Botnvörpuveiðar eru langalgengasta veiðiaðferðin þar í landi en þeim fylgir mikil röskun á botni og þeim lífverum sem þar þrífast, hvort sem veiðunum er beint að þeim eður ei. Í skýrslunni er m.a. vísað í rannsóknir sem benda til að neikvæðra áhrifa veiðanna á fjölbreytileika lífríkisins gæti áratugum saman og jafnvel um alla framtíð.
(Sjá fréttatilkynningu Naturskyddsföreningen 16. september).

Helmingur af öllu fiskmeti í súginn

seafoodUm 47% af öllum þeim sjávarafurðum sem ætlaðar eru til manneldis í Bandaríkjunum fara til spillis að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Johns Hopkins Center for a Livable Future (CLF). Þar af tapast um 12 prósentustig vegna brottkasts á sjó og um 7 prósentustig í dreifingu og sölu. Langstærsti hlutinn, um 28 prósentustig, fer í súginn hjá neytendum. Samtals er þannig rúmlega milljón tonnum af sjávarfangi sóað árlega, en sá skammtur myndi duga til að sjá 10-12 milljónum manna fyrir nægu próteini.
(Sjá frétt ENN í dag).

Afli tvöfaldaður með sjálfbærum fiskveiðum

fishingUK_160Bretar gætu tvöfaldað sjávarafla sinn á næstu 10 árum ef kvótaheimildir ESB væru í takt við ráðgjöf rannsóknarstofnana. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá New Economics Foundation þar sem mælt er með lækkun kvótaheimilda fyrir ákveðna stofna sem hafa verið ofveiddir, þannig að stofnarnir geti náð sér. Með þessu móti gæti breski fiskveiðiflotinn aukið afla sinn úr 560 milljónum tonna í 1.100 milljónir með tilheyrandi aukningu í tekjum og fjölgun starfa. Menn eru hins vegar tregir til að minnka kvótann, þar sem það getur haft mikil áhrif á efnahaginn til skamms tíma. Kvótarnir eru ákveðnir með tilliti til sögu fiskveiða og stærðar fiskveiðiflota í hverju landi, en sjávarútvegsráðherrum ESB ber engin skylda til að taka tillit til sjálfbærrar auðlindanýtingu til að koma í veg fyrir ofveiði. Endurbætur á kvótakerfi ESB eru þó á döfinni á næstu 5 árum þar sem lögð verður áhersla á að kvóti sé ákveðinn út frá sjálfbærum hámarksafla.
(Sjá frétt the Guardian í dag).