Mannkynið er komið út fyrir þolmörk jarðar á fjórum sviðum af níu sem skilgreind hafa verið, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Science. Sviðin fjögur sem um ræðir eru líffræðileg fjölbreytni, loftslagsbreytingar, eyðing skóga og lífjarðefnafræðileg ferli (hringrás fosfórs og köfnunarefnis). Þegar farið er yfir þolmörkin aukast líkur á óafturkræfum skemmdum á vistkerfum jarðar með þeim afleiðingum að jörðin verður mun verri dvalarstaður fyrir fólk en áður. Þolmörkin voru skilgreind af vísindamönnum árið 2009 til að auðvelda stjórnvöldum að átta sig á ástandi jarðarinnar og forgangsraða stefnumótun eftir ástandi hvers þáttar um sig. Þeir fimm þættir sem enn eru innan marka eru eyðing ósonlagsins, súrnun sjávar, notkun ferskvatns, úði í andrúmslofti (e. atmospheric aerosol) og efnamengun.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 16. apríl).