Vísindamenn við Rice háskólann hafa fundið leið til að breyta hvaða kolefnisríka úrgangi sem er í grafen með eldsnöggri hitun í hvarftanki upp í rúmlega 2.700°C. Afurðin kallast „blossagrafen“ (e. flash graphene) og hefur m.a. þann kost að auðvelt er að aðskilja grafenlögin og fá þannig grafennet sem er aðeins ein sameind á þykkt. Efnið er firnasterkt og getur m.a. nýst sem styrktarefni í steinsteypu. Að sögn vísindamannanna þarf ekki nema 0,1% af grafeni í steypuna til að minnka kolefnisspor hennar um þriðjung, þar sem með þessu minnkar verulega þörfin fyrir framleiðslu og flutning á sementi. Sementframleiðsla orsakar nú um 8% af allri koldíoxíðlosun af mannavöldum í heiminum. Blossagrafenið er mun ódýrara en það grafen sem nú þekkist. Orkutap frá framleiðslunni er óverulegt þar sem varmaorkan binst nær öll í efninu. Önnur efni en kolefni losna frá hvarftankinum í loftkenndu formi og þau efni, þ.m.t. súefni og köfnunarefni, má auðveldlega fanga og jafnvel nýta.
(Sjá frétt ScienceDaily 27. janúar).
Greinasafn fyrir merki: Rice
Gróðurhúsalofttegund breytt í fljótandi eldsneyti
Vísindamönnum við Rice háskólann hefur tekist að nota raforku til að breyta koldíoxíði í maurasýru í hvarftanki án þess að nota saltlausn og þar með án þess að þurfa að fara í gegnum orkufrekt og kostnaðarsamt hreinsunarferli. Sýruna er síðan hægt að nota sem hráefni eða breyta henni aftur í rafmagn í efnahverflum, rétt eins og nú er gert með vetni. Maurasýran hefur það fram yfir vetnið að geta geymt 1.000 sinnum meiri orku í sama rúmmáli. Vissulega losnar koldíoxíð þegar sýran er klofin á nýjan leik en það koldíoxíð er hægt að nýta aftur og aftur. Sé endurnýjanleg raforka notuð í ferlinu getur ávinningurinn verið verulegur í samanburði við þær aðferðir sem beitt hefur verið hingað til. Orkunýtingarhlutfallið í hvarftankinum er um 42% sem þýðir að 42% af raforkunni sem notuð er í ferlinu skilar sér í nýtanlegri orku í maurasýrunni. Nýjungin í þessu byggir á tvennu; annars vegar að nota bismút (Bi) sem hvata og hins vegar að þróa raflausn í föstu formi í stað saltlausnar.
(Sjá frétt Science Daily 3. september).