Vaxandi áhugi á Fairtrade-vörum

inforgrafer-fairtrade-international-2015-2-630x300Sala á Fairtrade vottuðum (réttlætismerktum) vörum á heimsmarkaði jókst um 16% á árinu 2015 frá árinu áður og nam samtals um 7,3 milljörðum evra (um 950 milljörðum ísl. kr.), að því er fram kemur í í ársskýrslu Fairtrade International 2015-2016. Mest varð aukningin i sölu á kakói (27%), kaffi (18%) og bönunum (12%). Samtals náði hreyfingin til um 1,6 milljóna framleiðenda og verkamanna í 75 löndum. Hluti af söluverði Fairtrade-vöru rennur til fjárfestinga og samfélagsverkefna í heimahéraði framleiðandans. Þessar fjárhæðir námu samtals 138 milljónum evra (um 18 milljörðum ísl. kr.) á árinu 2015.
(Sjá fréttatilkynningu Fairtrade í Svíþjóð 8. september).

Ólympíuleikarnir í Ríó fá sjálfbærnivottun

Rio2016logoSl. miðvikudag fékk undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna í Ríó afhent skírteini sem staðfestir að leikarnir standist kröfur staðalsins ISO 20121 um sjálfbærni viðburða. Umræddur staðall var tekinn í notkun árið 2012 og voru Ólympíuleikarnir sem haldnir voru í London það ár fyrsti viðburðurinn sem fékk vottun skv. staðlinum. Staðallinn gerir ýmsar kröfur til þeirra sem standa fyrir viðburðum af þessu tagi. Til að fá vottun þarf að standast ítarlega óháða úttekt á fjölmörgum þáttum sem varða umhverfismál og samfélagsmál í tengslum við viðkomandi viðburð, svo sem hvað varðar úrgangsforvarnir, orkunotkun og álag á nærsamfélagið.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar 28. janúar).

Fairtrade jólastjarnan frumsýnd

jolastjarnaFyrsta Fairtrademerkta jólastjarnan er komin á markað í Svíþjóð, en blómið er einnig fyrsta pottablómið sem fær Fairtrademerkingu þar í landi. Jólastjörnurnar hefja líf sitt í Eþíópíu en eru þaðan sendar til Svíþjóðar sem græðlingar, þar sem síðasti hluti ræktunarinnar fer fram í gróðrarstöðinni Tågerups Trädgård. Framkvæmdastjóri gróðrarstöðvarinnar segir að fyrirtækið vilji tryggja góð vinnuskilyrði og mannréttindi fyrir ræktendur auk þess sem hann segir mikil viðskiptatækifæri liggja í vottuninni þar sem eftirspurn eftir Fairtradevörum er mikil í Svíþjóð. Þar hafa Fairtrademerkt blóm m.a. náð miklum vinsældum og í dag er um þriðjungur allra rósa í Svíþjóð vottaðar. Með því að velja Fairtrademerktar jólastjörnur umfram aðrar vinnur maður gegn barnaþrælkun og tryggir að grundvallarmannréttindi séu virt í framleiðsluferlinu.
(Sjá frétt Fairtrade í Svíþjóð 23. nóvember).

Öll bómull hjá IKEA orðin „sjálfbærari“

bomull (160x81)Öll bómull sem húsgagnarisinn IKEA notar í vörur sínar stenst nú kröfur samtakanna Better Cotton Initiative, en að eigin sögn er IKEA fyrsti smásöluaðilinn sem nær þessu markmiði. Better Cotton Initiative var sett á stofn árið 2010 með þáttöku IKEA, WWF og fleiri aðila með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum bómullarræktar á umhverfi og samfélag. Upphaflega voru 500 bómullarræktendur í Pakistan með í samstarfinu, en það nær nú til 110.000 ræktenda. Til að uppfylla kröfur samtakanna þarf að draga úr efnanotkun, nýta vatn betur og sækja námskeið um umhverfismál, vinnuumhverfi o.fl. Í fréttatilkynningu frá IKEA kemur fram að umrædd bómull sé „sjálfbærari“ en flest önnur bómull, en hún uppfylli þó ekki kröfur lífrænnar vottunar. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar bómullar er aðeins um 1% og því nær útilokað fyrir stóra aðila að nýta hana eingöngu sem hráefni í vörur sínar.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 16. nóvember).

Kaþólska kirkjan kalla eftir meiri metnaði í loftslagsmálum

CatholicÍ gær sendu kardínálar, patríarkar og kaþólskir biskupar frá fimm heimsálfum ákall til leiðtoga þjóða heims um að ganga frá róttæku samkomulagi um loftslagsmál á ráðstefnunni í París í desember (COP21) til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Í ákallinu, sem byggt er á páfabréfinu frá liðnu sumri („Laudato Si“), kemur fram að stefna þurfi að algjöru kolefnishlutleysi um miðja þessa öld og að í allri ákvarðanatöku á þessu sviði þurfi að huga sérstaklega að hagsmunum þeirra sem fátækastir eru og verða fyrir mestum áhrifum af loftslagsbreytingunum. Slík áskorun frá kaþólsku kirkjunni á heimsvísu er með öllu fordæmalaus, en íhaldssamir kaþólikkar vestanhafs eru lítt hrifnir af framtakinu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Nágrannaskiptikassar lífga upp á Genf

IMG_20150427_113927_0 (160x240)Frá því á árinu 2011 hafa íbúar í Genf í Sviss endurnotað 32 tonn af ýmsum vörum sem settar hafa verið í sérstaka nágrannaskiptikassa. Í þessa kassa getur fólk sett hvaðeina sem það kærir sig ekki um að eiga og tekið þaðan annað sem hugur þess girnist. Kassarnir eru hluti af verkefninu Boîtes D’Échange Entre Voisins. Þeim er ekki aðeins ætlað að stuðla að endurnotkun, heldur einnig af hvetja til samskipta fólks og blása lífi í ónotaða staði. Í samræmi við þetta síðastnefnda hlutverk er kössunum komið fyrir á svonefndum „hvergistöðum“ (e. non-places) þar sem fólk hefur hingað til haft litla ástæðu til að staldra við. Í raun er þarna um að ræða tilraunaverkefni, ekki aðeins í umhverfislegu, heldur einnig í félagslegu, menningarlegu og listrænu samhengi.
(Sjá frétt ENN í dag).

IKEA sjálfu sér nægt um orku á Norðurlöndunum

WindIKEA_160Með opnun þriðja vindorkulundar IKEA í Svíþjóð í gær er fyrirtækið orðið óháð öðrum um orku fyrir starfsemi sína á Norðurlöndunum, þar sem raforkuframleiðsla fyrirtækisins á svæðinu er orðin meiri en heildarnotkunin. IKEA hefur sett sér það markmið að vera sjálfu sér nægt um orku á heimsvísu árið 2020 og segir talsmaður fyrirtækisins að stórum áfanga hafi verið náð í gær. IKEA hefur til þessa fjárfest fyrir um 1,5 milljarða sænskra króna (SEK) (um 24 milljarða ísl. kr.) í endurnýjanlegri orku í Svíþjóð og í árslok verður heildarfjárfesting þeirra á þessu sviði á heimsvísu væntanlega komin í 14 milljarða SEK (um 222 milljarða ísl. kr.). Fyrirtækið á nú 46 vindmyllur í Svíþjóð og að sögn fulltrúa Orkustofnunar Svíþjóðar er árangur fyrirtækisins dæmi um þann árangur sem atvinnulífið getur náð með frumkvæði og ábyrgð í eigin rekstri.
(Sjá frétt á heimasíðu IKEA 27. maí).

Matarsóun bönnuð í frönskum verslunum

food_waste_france_160Í síðustu viku samþykkti franska þingið einróma að skylda allar matvöruverslarnir í Frakklandi (stærri en 400 fermetrar) að gefa góðgerðarsamtökum þann mat sem verður afgangs í verslununum. Lög um þetta taka gildi í júlí 2016, en með þeim vill þingið sporna gegn matarsóun og draga úr fátækt í landinu. Ruslurum hefur fjölgað mjög í Frakklandi síðustu ár og hafa verslanir brugðist við með því að hella klóri í ruslagáma eða geyma gámana í læstum skemmum. Mikið af matarúrgangi fellur til í verslunum vegna „best-fyrir“ merkinga og því er ferskum matvælum iðulega hent í umbúðunum. Verslunum sem ekki ganga frá samningum við góðgerðarfélög fyrir gildistöku laganna verður refsað með sektum og fangelsisdómum. Frjáls félagasamtök hafa gagnrýnt löggjöfina þar sem þar sé lögð áhersla á úrgangsmeðhöndlun í stað þess að vekja athygli á offramleiðslu í matvælaiðnaðinum. Samtök verslunarmanna benda hins vegar á að aðeins um 11% af matarsóun í Frakklandi megi rekja til verslana en allt að 67% til neytenda og því ættu stjórnvöld að einblína á matarsóun á heimilum.
(Sjá frétt the Guardian 22. maí).

Mikill umhverfislegur sparnaður hjá Adidas!

adidas_160Á dögunum birti Adidas sjálfbærniskýrslu sína fyrir árið 2014. Þar kemur fram að á síðustu 6 árum hefur fyrirtækið náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmyndun og vatnsnotkun um rúmlega 20%. Fyrirtækið hefur ráðist í ýmis verkefni til að minnka vistspor sitt. Sem dæmi má nefna að á næstu árum verður allri notkun plastpoka í verslunum fyrirtækisins hætt. Þá er fyrirtækið farið að nýta plastrusl úr hafinu sem hráefni í endurunnið plastefni sem nýtist m.a. við framleiðslu á skóm. Dregið hefur verið úr losun gróðurhúsalofttegunda með bættri orkunýtingu og kolefnisjöfnun en verðlag og aðgengi að endurnýjanlegri orku standa enn í vegi fyrir frekari úrbótum. Vatnssparnaðurinn byggist einkum á tveimur atriðum, annars vegar svonefndri DryDye tækni við litun bómullar og hins vegar aukinni áherslu á notkun lífrænnar bómullar, sem er nú um 30% af allri bómull sem fyrirtækið notar.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Líftími raftækja styttist

raftaeki_160Í rannsókn Umhverfisstofnunar Þýskalands á „skipulegri úreldingu“ (e. built-in obsolescence) kom í ljós að sífellt fleiri raftæki eru seld til að koma í stað gallaðrar vöru. Árið 2004 var aðeins um 3,5% seldra raftækja í Evrópu ætlað að koma í stað gallaðra vöru en árið 2012 var hlutfallið komið í 8,3%. Á sama tíma hefur hlutfall stórra heimilistækja sem bila á fyrstu fimm árunum hækkað úr 7% árið 2004 í 13% árið 2013. Þessar tölur benda til að gæði og endingartími raftækja séu á niðurleið og að hugsanlega leggi raftækjaframleiðendur áherslu á stuttan líftíma til þess að auka sölu. Styttingu á líftíma má einnig rekja til neysluvenju þar sem neytendur leggja sífellt meiri áherslu á að eiga nýjasta módelið. Þannig voru um 60% allra sjónvarpstækja sem skipt var út árið 2012 í góðu lagi. Stjórnvöld innan ESB hafa áhyggjur af óábyrgri auðlindanotkun og áhrifum hennar á umhverfið og eru að skoða möguleika á að skylda framleiðendur til að tryggja endingu og að hægt sé að gera við raftækin.
(Sjá frétt the Guardian 3. mars).