Gerð svifryks skiptir ekki síður máli en magnið

Vitað er að svifryk hefur skaðleg áhrif á heilsu. Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við Paul Scherrer Institute (PSI) í Sviss ráðast þessi áhrif þó að öllum líkindum ekki fyrst og fremst af magni svifryksins, heldur af samsetningu þess, nánar tiltekið af „oxunargetu“ (e. oxidative potential) svifryksagnanna. Með „oxunargetu“ er átt við getu agnanna til að eyða andoxunarefnum í frumum líkamans, sem síðan getur leitt til frumu- og vefjaskemmda. Stór hluti svifryks er svokallað steinefnasvifryk úr jarðvegi, ásamt ólífrænum ögnum sem innihalda m.a. ammóníumnítrat og súlfat. Þetta ryk hefur ekki mikla „oxunargetu“. Öðru máli gegnir um „manngert ryk“ á borð við sótagnir og málmagnir úr bremsuborðum og dekkjasliti. Þetta þýðir að íbúar þéttbýlis búa ekki aðeins við meira svifryk en íbúar dreifbýlis, heldur er þéttbýlissvifrykið einnig skaðlegra heilsunni. Samkvæmt þessu er ekki nóg að setja reglur um magn svifryks, heldur þarf einnig að taka tillit til samsetningar þess.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær)

Sviss stendur sig best í umhverfismálum

Sviss stendur sig þjóða best í umhverfismálum ef marka má nýja skýrslu Yale-háskólans um umhverfisvísitölur þjóða (Environmental Performance Index (EPI)) sem gefin er út annað hvort ár og birt í tengslum við fund Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í Davos. Há einkunn Sviss (87,42) endurspeglar góða frammistöðu á ýmsum sviðum, einkum þó hvað varðar loftgæði og loftslagsvernd. Frakkland, Danmörk, Malta og Svíþjóð raða sér í næstu sæti, en Ísland vermir 11. sætið og hefur fallið úr 2. sæti þar sem það var statt fyrir tveimur árum. EPI-skýrslan er nú birt í 10. sinn og í henni er 180 þjóðum raðað eftir frammistöðu í 24 atriðum, auk þess sem lagt er mat á þróun mála í hverju landi um sig síðustu árin. Almennt hefur staðan á heimsvísu batnað í málum á borð við neysluvatn og hreinlæti, en á öðrum sviðum er mikilla úrbóta þörf. Léleg loftgæði eru stærsta ógnin við lýðheilsu eins og staðan er í dag.
(Sjá frétt á heimasíðu Yale-háskólans 23. janúar).

Rafbílar hlaðnir á 15 mínútum?

Fit_EV_Direct_Solar_Charging_Plug-668-668x409Svissneskir vísindamenn telja sig hafa fundið leið til að byggja upp hleðslustöð sem gæti fullhlaðið nokkra rafbíla samtímis á u.þ.b. 15 mínútum. Slík stöð þyrfti að hafa afl upp á 4,5 MW, sem samsvarar orkuþörf 4.500 þvottavéla sem keyrðar eru samtímis. Slíkir raforkuflutningar eru ofviða venjulegu dreifikerfi og því byggir lausn Svisslendinganna á að byggðar verði upp orkugeymslur við hverja hleðslustöð. Þar er í raun um að ræða risavaxnar rafhlöður, en stöð sem á að geta hlaðið 200 rafbíla á sólarhring þyrfti að geta geymt um 2,2 MWst. Miðað við núverandi tækni væri slík rafhlaða á stærð við fjóra venjulega flutningagáma. Með þessu móti væri hægt að byggja upp hleðslustöðvar sem gætu tekið við þegar bensínstöðvar í núverandi mynd líða undir lok.
(Sjá frétt á HybridCar.com í gær).

Nágrannaskiptikassar lífga upp á Genf

IMG_20150427_113927_0 (160x240)Frá því á árinu 2011 hafa íbúar í Genf í Sviss endurnotað 32 tonn af ýmsum vörum sem settar hafa verið í sérstaka nágrannaskiptikassa. Í þessa kassa getur fólk sett hvaðeina sem það kærir sig ekki um að eiga og tekið þaðan annað sem hugur þess girnist. Kassarnir eru hluti af verkefninu Boîtes D’Échange Entre Voisins. Þeim er ekki aðeins ætlað að stuðla að endurnotkun, heldur einnig af hvetja til samskipta fólks og blása lífi í ónotaða staði. Í samræmi við þetta síðastnefnda hlutverk er kössunum komið fyrir á svonefndum „hvergistöðum“ (e. non-places) þar sem fólk hefur hingað til haft litla ástæðu til að staldra við. Í raun er þarna um að ræða tilraunaverkefni, ekki aðeins í umhverfislegu, heldur einnig í félagslegu, menningarlegu og listrænu samhengi.
(Sjá frétt ENN í dag).