Sala á Fairtrade vottuðum (réttlætismerktum) vörum á heimsmarkaði jókst um 16% á árinu 2015 frá árinu áður og nam samtals um 7,3 milljörðum evra (um 950 milljörðum ísl. kr.), að því er fram kemur í í ársskýrslu Fairtrade International 2015-2016. Mest varð aukningin i sölu á kakói (27%), kaffi (18%) og bönunum (12%). Samtals náði hreyfingin til um 1,6 milljóna framleiðenda og verkamanna í 75 löndum. Hluti af söluverði Fairtrade-vöru rennur til fjárfestinga og samfélagsverkefna í heimahéraði framleiðandans. Þessar fjárhæðir námu samtals 138 milljónum evra (um 18 milljörðum ísl. kr.) á árinu 2015.
(Sjá fréttatilkynningu Fairtrade í Svíþjóð 8. september).