Fjárfestar gætu tapað 260 þúsund milljörðum

3000Á næstu 10 árum gætu fjárfestar tapað allt að 2.000 milljörðum Bandaríkjadala (um 260.000 milljörðum ísl. kr.) af því fé sem þeir hafa lagt í fyrirtæki og verkefni í jarðefnaeldsneytisgeiranum, þ.e.a.s. ef leiðtogar þjóða heims ná samkomulagi í París í næsta mánuði um aðgerðir sem duga til að halda hitastigshækkun á jörðinni innan við 2°C. Til að ná því marki þarf að draga hratt og mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem þýðir m.a. að engin þörf verður fyrir nýjar kolanámur og að eftirspurn eftir olíu mun minnka eftir 2020. Því verða mörg áformuð verkefni tilgangslaus og óarðbær, m.a. olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og vinnsla á tjörusandi. Þetta kemur fram í skýrslu hugveitunnar Carbon Tracker sem kynnt var í vikunni. Framkvæmdastjóri Carbon Tracker hafði á orði þegar skýrslan var kynnt að viðskiptasagan væri vörðuð dæmum af fyrirtækjum á borð við Kodak, sem hefðu ekki áttað sig á yfirvofandi breytingum og því setið eftir. Skýrslan fæli í sér viðvörun til fyrirtækja í jarðefnaeldsneytisgeiranum um hættuna á verulegu verðmætatapi sem komast mætti hjá.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

90 nýjar hleðslustöðvar fyrir COP21 í París

full_29369Bílaframleiðandinn Renault-Nissan ætlar að setja upp 90 nýjar hleðslustöðvar fyrir rafbíla í París áður en loftslagsráðstefnan COP21 hefst þar um mánaðarmótin. Verkið er unnið í samvinnu við borgaryfirvöld í París og orkufyrirtækið Schneider Electric, en bílaframleiðandinn mun útvega 200 rafbíla af gerðinni Nissan LEAF og Renault ZOE til að flytja fulltrúa á ráðstefnunni á milli staða. Gert er ráð fyrir að þessir bílar leggi samtals að baki rúma 400.000 km á þeim tveim vikum sem ráðstefnan stendur. Carlos Ghosn, forstjóri Renault-Nissan, hefur haft á orði að uppbygging innviða fyrir rafbíla sé skylduverkefni allra ríkja og borga sem taka hlutverk sitt í umhverfismálum alvarlega.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Kaþólska kirkjan kalla eftir meiri metnaði í loftslagsmálum

CatholicÍ gær sendu kardínálar, patríarkar og kaþólskir biskupar frá fimm heimsálfum ákall til leiðtoga þjóða heims um að ganga frá róttæku samkomulagi um loftslagsmál á ráðstefnunni í París í desember (COP21) til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Í ákallinu, sem byggt er á páfabréfinu frá liðnu sumri („Laudato Si“), kemur fram að stefna þurfi að algjöru kolefnishlutleysi um miðja þessa öld og að í allri ákvarðanatöku á þessu sviði þurfi að huga sérstaklega að hagsmunum þeirra sem fátækastir eru og verða fyrir mestum áhrifum af loftslagsbreytingunum. Slík áskorun frá kaþólsku kirkjunni á heimsvísu er með öllu fordæmalaus, en íhaldssamir kaþólikkar vestanhafs eru lítt hrifnir af framtakinu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).