Kaþólska kirkjan losar fé úr jarðefnaeldsneytisgeiranum

Allmargar stofnanir kaþólsku kirkjunnar ætla að losa sig við hlutabréf sín í kola-, olíu- og gasiðnaði. Heildarupphæð þessara fjármagnsflutninga liggur ekki fyrir en þetta verður stærsta fjárlosunaraðgerð trúartengdra stofnana hingað til. Christiana Figueres, fyrrv. framkvæmdastjóri Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, hefur fagnað þessu framtaki, enda sé það bæði skynsamlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði og siðferðileg nauðsyn. Tilkynningin um þessa aðgerð kirkjustofnananna var birt 3. október, á dánardægri heilags Frans frá Assisi og á rætur í páfabréfinu Laudato Si sem nafni hans, Frans páfi, skrifaði vorið 2015.
(Sjá frétt The Guardian 3. október).

Kaþólska kirkjan kalla eftir meiri metnaði í loftslagsmálum

CatholicÍ gær sendu kardínálar, patríarkar og kaþólskir biskupar frá fimm heimsálfum ákall til leiðtoga þjóða heims um að ganga frá róttæku samkomulagi um loftslagsmál á ráðstefnunni í París í desember (COP21) til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Í ákallinu, sem byggt er á páfabréfinu frá liðnu sumri („Laudato Si“), kemur fram að stefna þurfi að algjöru kolefnishlutleysi um miðja þessa öld og að í allri ákvarðanatöku á þessu sviði þurfi að huga sérstaklega að hagsmunum þeirra sem fátækastir eru og verða fyrir mestum áhrifum af loftslagsbreytingunum. Slík áskorun frá kaþólsku kirkjunni á heimsvísu er með öllu fordæmalaus, en íhaldssamir kaþólikkar vestanhafs eru lítt hrifnir af framtakinu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Vatíkanið og Sameinuðu þjóðirnar vara við loftslagsbreytingum

pope_160Vatíkanið og Sameinuðu þjóðirnar hafa sameiginlega varað fólk við afleiðingum loftslagsbreytinga og fordæmt raddir efasemdarmanna sem halda því fram að breytingar á loftslagi séu ekki af mannavöldum. Ban Ki-Moon, aðalframkvæmdastjóri SÞ, og Frans páfi ræddu málið fyrir setningu ráðstefnu um loftslagsmál undir yfirskriftinni „Siðferðilegar víddir loftslagsbreytinga og sjálfbærrar þróunar“, þar sem vísindamenn og trúarleiðtogar leiddu saman hesta sína. Í yfirlýsingu ráðstefnunar kemur fram að manngerðar loftslagsbreytingar séu vísindalegur raunveruleiki, að það sé siðferðisleg og trúarleg skylda mannkyns að bregðast við og að COP-fundurinn í París í desember gæti orðið síðasta tækifærið til að semja um aðgerðir til að fyrirbyggja að meðalhitastig jarðar hækki um meira en 2°C. Páfinn hyggst gefa út páfabréf á næstunni til að koma þeim skilaboðum á framfæri að umhverfisvernd sé ófrávíkjanleg krafa og heilög skylda hins trúaða samfélags. Miklar vonir eru bundnar við að páfabréfið hafi áhrif á viðræðurnar í París í desember.
(Sjá frétt PlanetArk 29. apríl).