Ólympíuleikarnir í Ríó fá sjálfbærnivottun

Rio2016logoSl. miðvikudag fékk undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna í Ríó afhent skírteini sem staðfestir að leikarnir standist kröfur staðalsins ISO 20121 um sjálfbærni viðburða. Umræddur staðall var tekinn í notkun árið 2012 og voru Ólympíuleikarnir sem haldnir voru í London það ár fyrsti viðburðurinn sem fékk vottun skv. staðlinum. Staðallinn gerir ýmsar kröfur til þeirra sem standa fyrir viðburðum af þessu tagi. Til að fá vottun þarf að standast ítarlega óháða úttekt á fjölmörgum þáttum sem varða umhverfismál og samfélagsmál í tengslum við viðkomandi viðburð, svo sem hvað varðar úrgangsforvarnir, orkunotkun og álag á nærsamfélagið.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar 28. janúar).

Nýtt vottunarkerfi fyrir aðfangakeðjur

29052 (160x107)Fyrirtækið Carbon Trust kynnti í dag nýjan staðal fyrir vottun á aðfangakeðjum fyrirtækja með tilliti til kolefnislosunar. Til að fá vottun þurfa fyrirtæki að koma á samstarfi við birgja um minnkun kolefnislosunar og sýna fram á að tekist hafi að draga úr losun í einstökum hlutum aðfangakeðjunnar. Með staðlinum, sem er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum, er komið til móts við fyrirtæki sem hafa áttað sig á að bein umhverfisáhrif innan fyrirtækisins eru yfirleitt aðeins brot af þeim áhrifum sem verða til ofar í aðfangakeðjunni, svo sem við vinnslu hráefna, framleiðslu íhluta o.s.frv. Vottun aðfangakeðjunnar er því mikilvægur liður í að draga úr heildaráhrifum hinnar endanlegu vöru á umhverfið.
(Sjá frétt EDIE í dag).