Öll bómull hjá IKEA orðin „sjálfbærari“

bomull (160x81)Öll bómull sem húsgagnarisinn IKEA notar í vörur sínar stenst nú kröfur samtakanna Better Cotton Initiative, en að eigin sögn er IKEA fyrsti smásöluaðilinn sem nær þessu markmiði. Better Cotton Initiative var sett á stofn árið 2010 með þáttöku IKEA, WWF og fleiri aðila með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum bómullarræktar á umhverfi og samfélag. Upphaflega voru 500 bómullarræktendur í Pakistan með í samstarfinu, en það nær nú til 110.000 ræktenda. Til að uppfylla kröfur samtakanna þarf að draga úr efnanotkun, nýta vatn betur og sækja námskeið um umhverfismál, vinnuumhverfi o.fl. Í fréttatilkynningu frá IKEA kemur fram að umrædd bómull sé „sjálfbærari“ en flest önnur bómull, en hún uppfylli þó ekki kröfur lífrænnar vottunar. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar bómullar er aðeins um 1% og því nær útilokað fyrir stóra aðila að nýta hana eingöngu sem hráefni í vörur sínar.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 16. nóvember).

Mörg svæði á heimsminjaskrá í hættu vegna olíuvinnslu

unesco (160x97)Um þriðjungur allra náttúrufyrirbæra á heimsminjaskrá UNESCO (70 af 229) er í hættu vegna umsvifa olíu- og námufyrirtækja að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem náttúruverndarsamtökin WWF hafa unnið í samvinnu við fjárfestingarsjóðina Aviva Investors og Investec. Þar á meðal eru flestöll slík náttúrufyrirbæri í Afríku. Allmörg námufyrirtæki hafa gerst aðilar að svonefndri „no go“ yfirlýsingu sem felur í sér fyrirheit um að stunda ekki starfsemi á svæðum á heimsminjaskrá. Hins vegar hafa aðeins örfá olíufélög gert slíkt hið sama. Markaðshlutdeild „no go olíufélaga“ er þannig aðeins um 2% á heimsvísu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Húsgögn og gólf úr ólöglegu timbri til sölu

SiberiutigurMiklar líkur eru á að húsgögn og gólfefni úr ólöglegu timbri séu seld í Evrópu þrátt fyrir reglur sem banna slík viðskipti. Í nýrri úttekt WWF kemur fram að á síðan um aldamót hafi útflutningur á timbri frá austasta hluta Rússlands verið tvöfalt til fjórfalt það magn sem leyft er að fella og vinna á þeim slóðum. Timbrið er að mestu leyti flutt til Kína þar sem framleidd eru úr því húsgögn og gólfefni, sem síðan eru m.a. flutt út til Evrópu. Skógarhöggið spillir búsvæðum Síberíutígursins, sem er í mikilli útrýmingarhættu, auk þess sem það bitnar á frumbyggjum og samfélögum þeirra. Stjórnvöld í Rússlandi hafa ekki náð að stöðva þessa starfsemi og því brýnir WWF það fyrir vestrænum fyrirtækjum og neytendum að huga betur að uppruna varnings úr timbri og kaupa helst FSC-vottaðar vörur.
(Sjá frétt á heimasíðu WWF í Svíþjóð í gær).

Coca Cola styrkir Norðurheimskautsverkefni WWF

Coca ColaCoca-Cola ætlar að styrkja alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin WWF um 3 milljónir evra (rúml. hálfan milljarð ísl. kr.) á næstu þremur árum. Féð verður notað til að hrinda af stað átaki um alla Evrópu til að vekja athygli á alvarlegum áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi á Norðurheimskautssvæðinu. Athyglinni verður sérstaklega beint að ísbjörnum, en ör bráðnun heimskautaíssins neyðir birnina til að verja sífellt lengri tíma á landi, sjálfum sér og mannfólkinu til armæðu og tjóns. Þess er og að vænta að auglýsingar og umbúðir Coca Cola verði nýttar til að fræða neytendur um þá ógn sem bráðnun heimskautaíssins raunverulega er.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).