Öll bómull sem húsgagnarisinn IKEA notar í vörur sínar stenst nú kröfur samtakanna Better Cotton Initiative, en að eigin sögn er IKEA fyrsti smásöluaðilinn sem nær þessu markmiði. Better Cotton Initiative var sett á stofn árið 2010 með þáttöku IKEA, WWF og fleiri aðila með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum bómullarræktar á umhverfi og samfélag. Upphaflega voru 500 bómullarræktendur í Pakistan með í samstarfinu, en það nær nú til 110.000 ræktenda. Til að uppfylla kröfur samtakanna þarf að draga úr efnanotkun, nýta vatn betur og sækja námskeið um umhverfismál, vinnuumhverfi o.fl. Í fréttatilkynningu frá IKEA kemur fram að umrædd bómull sé „sjálfbærari“ en flest önnur bómull, en hún uppfylli þó ekki kröfur lífrænnar vottunar. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar bómullar er aðeins um 1% og því nær útilokað fyrir stóra aðila að nýta hana eingöngu sem hráefni í vörur sínar.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 16. nóvember).