Í rannsókn Umhverfisstofnunar Þýskalands á „skipulegri úreldingu“ (e. built-in obsolescence) kom í ljós að sífellt fleiri raftæki eru seld til að koma í stað gallaðrar vöru. Árið 2004 var aðeins um 3,5% seldra raftækja í Evrópu ætlað að koma í stað gallaðra vöru en árið 2012 var hlutfallið komið í 8,3%. Á sama tíma hefur hlutfall stórra heimilistækja sem bila á fyrstu fimm árunum hækkað úr 7% árið 2004 í 13% árið 2013. Þessar tölur benda til að gæði og endingartími raftækja séu á niðurleið og að hugsanlega leggi raftækjaframleiðendur áherslu á stuttan líftíma til þess að auka sölu. Styttingu á líftíma má einnig rekja til neysluvenju þar sem neytendur leggja sífellt meiri áherslu á að eiga nýjasta módelið. Þannig voru um 60% allra sjónvarpstækja sem skipt var út árið 2012 í góðu lagi. Stjórnvöld innan ESB hafa áhyggjur af óábyrgri auðlindanotkun og áhrifum hennar á umhverfið og eru að skoða möguleika á að skylda framleiðendur til að tryggja endingu og að hægt sé að gera við raftækin.
(Sjá frétt the Guardian 3. mars).