Sl. miðvikudag fékk undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna í Ríó afhent skírteini sem staðfestir að leikarnir standist kröfur staðalsins ISO 20121 um sjálfbærni viðburða. Umræddur staðall var tekinn í notkun árið 2012 og voru Ólympíuleikarnir sem haldnir voru í London það ár fyrsti viðburðurinn sem fékk vottun skv. staðlinum. Staðallinn gerir ýmsar kröfur til þeirra sem standa fyrir viðburðum af þessu tagi. Til að fá vottun þarf að standast ítarlega óháða úttekt á fjölmörgum þáttum sem varða umhverfismál og samfélagsmál í tengslum við viðkomandi viðburð, svo sem hvað varðar úrgangsforvarnir, orkunotkun og álag á nærsamfélagið.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar 28. janúar).