Engin kalkvinnsla í Ojnareskógi

Umhverfisyfirréttur Svíþjóðar (Mark- och miljööverdomstolen) hefur úrskurðað að óheimilt sé að opna kalknámu í Ojnareskógi á Gotlandi, þar sem svæðið njóti verndar sem Natura 2000-svæði. Fyrirtækin Nordkalk og SMA Mineral fengu leyfi til kalkvinnslu á svæðinu árið 2014 en leyfisveitingin var kærð til dómstólsins. Natura 2000-svæðið sem um ræðir var stækkað eftir 2014 en samkvæmt úrskurði dómstólsins ber að taka tillit til áhrifa kalkvinnslunnar á hið stækkaða svæði, þó að vinnsluleyfi hafi verið veitt fyrir stækkun, enda hafi stækkunin verið staðfest fyrir dómi. Kalkvinnslan myndi spilla þessu svæði og því skuli hún óheimil. Fyrirtækin sem í hlut eiga geta áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar (Högsta domstolen) en ólíklegt þykir að Hæstiréttur hnekki úrskurðinum, þar sem hann fjallar um flókin vatnafræðileg og náttúruvísindaleg viðfangsefni sem Hæstiréttur mun tæplega taka til skoðunar. Úrskurðurinn þykir mikill sigur fyrir heimamenn og aðra sem lengi hafa barist gegn umræddri kalkvinnslu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).

Hávaði ógnar friðlýstum svæðum

Hljóð frá athöfnum manna hafa veruleg neikvæð áhrif á lífríki og upplifun gesta á flestum friðlýstum svæðum að því er fram kemur í rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Science í síðustu viku. Rannsóknin, sem er sú fyrsta sinnar tegundar, leiddi í ljós að á 63% friðlýstra svæða í Bandaríkjunum nam hljóðmengun tvöföldu bakgrunnsgildi og á 21% allra svæðanna var hljóðmengun tíföld eða meiri. Á þessum svæðum, sem taka til allt að 90% alls flatarmáls friðaðra svæða, er ekki lengur hægt að heyra náttúruhljóð, nema þá í besta falli í mjög lítilli fjarlægð. Þetta spillir gildi svæðanna til hvíldar og slökunar, auk þess sem framandi hljóð trufla eða styggja dýr og geta leitt til breyttrar tegundasamsetningar. Jafnvel plöntur verða fyrir áhrifum vegna breytinga á lífsháttum skordýra sem bera frjó á milli plantna. Algengast er að hljóðmengun berist frá flugumferð, vegakerfi, iðnaði eða byggð. Aðstandendur rannsóknarinnar telja mikilvægt að vernda hljóðvist á þeim svæðum sem enn eru tiltölulega ósnortin af utanaðkomandi hávaða.
(Sjá frétt Science Daily 4. maí).

Nýsjálendingar friða stórt hafsvæði

2000px-New_Zealand_location_map_transparent.svgNýsjálensk stjórnvöld hafa ákveðið að friða svonefnt Kermadecsvæði á hafinu norður af landinu, en á þessu svæði eru m.a. neðansjávareldfjöll og heimkynni sjávardýrategunda í útrýmingarhættu. John Key, forsætisráðherra landsins, tilkynnti um friðunina á fundi Sameinuðu þjóðanna í gær. Verndarsvæðið verður eitt af þeim stærstu í heimi, eða um 620.000 ferkílómetrar (sexföld stærð Íslands). Friðunin kom námufyrirtækjum í opna skjöldu, en nokkur þeirra höfðu uppi áform um vinnslu jarðefna af sjávarbotni á þessu svæði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Olíuslys í friðlandi í Ísrael

Crude oil streams in desert in south Israel, near the village of Beer Ora, north of EilatMilljónir lítra af olíu flæddu yfir Evrona friðlandið í Ísrael eftir að olíuleiðsla fyrirtækisins Eilat-Ashkelon á svæðinu gaf sig sl. miðvikudag. Talsmaður umhverfisráðuneytis Ísraels segir slysið vera eitt alvarlegasta umhverfisslys í sögu landsins. Evrona friðlandið er þekkt fyrir stórar eyðimerkur, dádýr og sérstæð pálmatré. Olían hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á dýra- og plöntulíf á svæðinu og er talið að hreinsun og endurreisn svæðisins muni taka nokkur ár.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).

Stærstu þjóðgarðar heimshafanna stofnaðir í Ástralíu

Síðastliðinn föstudag kynnti Tony Burke, umhverfisráðherra Ástralíu, ákvörðun þarlendra stjórnvalda um stofnun þjóðgarða á nærliggjandi hafsvæðum til að vernda kóralrif og annað lífríki sjávar gegn neikvæðum áhrifum olíuleitar og fiskveiða. Þetta verður stærsta náttúruverndarsvæði heimshafanna, samtals um 2,3 milljónir ferkílómetra (u.þ.b. 23-föld stærð Íslands). Með þessu vilja stjórnvöld tryggja að fiskabúr og teiknimyndin ‘Finding Nemo’ verði ekki einu heimildirnar sem eftir verða um mikilfengleika hafanna.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Möstur talin ógna fegurð Vatnahéraðs

Náttúruverndarsinnar í Bretlandi hafa miklar áhyggjur af áformum þarlendra stjórnvalda um að aflétta banni við uppsetningu farsímamastra og loftlína í Vatnahéraði (e. Lake District), einu helsta náttúrverndarsvæði Bretlands. Frumvarp um þessa tilslökun verður væntanlega rætt í breska þinginu á næstu vikum, en tilgangurinn er að auka hagvöxt og flýta fyrir 4G- og breiðbandsvæðingu landsbyggðarinnar. Þetta telja náttúruverndarsinnar vel hægt að gera án þess að breyta ásýnd Vatnahéraðs, enda hafi héraðið mikla þýðingu fyrir þjóðina, bæði í vistfræðilegu, hagrænu og menningarlegu tilliti.
(Sjá frétt The Guardian 3. nóvember).

Náttúruverndarsvæði orðin meira en fimmtungur af Evrópu

Flatarmál náttúruverndarsvæða í Evrópu er nú komið yfir 21% af öllu flatarmáli álfunnar. Vatnajökulsþjóðgarður er stærsta svæðið í þessum flokki, en samtals eru svæðin um 105.000 talsins. Hægar gengur að friða svæði á hafinu, en þar eiga Evrópulönd enn langt í land til að ná markmiði Evrópusambandsins um að 10% af hafsvæðum sambandslandanna njóti verndunar. Einkum hefur lítið miðað í friðun hafsvæða fjær landi. Rannsóknir benda til að beinar og óbeinar tekjur af nátturuverndarsvæðum séu þrefalt til sjöfalt hærri en stofnkostnaðurinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu 23. október).