Eru kaffidrifnir strætisvagnar framtíðin?

Olía sem unnin er úr kaffikorgi er nú notuð á nokkra strætisvagna í London. Á hverjum degi eru drukknir um 55 milljón bollar af kaffi í Bretlandi og samtals falla þar til um 200.000 tonn af kaffikorgi á ári. Fyrirtækið Bio-bean safnar korgi og vinnur úr honum olíu sem síðan er blandað í venjulega dísilolíu í hlutföllunum 20/80 (B20-lífdísill). Engar breytingar þarf að gera á olíuverki strætisvagnanna til að þeir geti nýtt þetta eldsneyti. Lífdísill úr notaðri matarolíu og tólg hefur um nokkurt skeið verið notaður með þessum hætti í almenningsfarartækjum í London, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem kaffikorgur kemur að notum sem orkugjafi á þeim vettvangi.
(Sjá frétt BBC 19. nóvember).

Endurnýjanlegt þotueldsneyti í þróun

Vísindamenn við Háskólann í Delaware eru komnir áleiðis í viðleitni sinni til að framleiða samkeppnishæft þotueldsneyti úr lífmassa, nánar tiltekið úr beðmi og tréni úr viðarkurli og maískólfum. Einn helsti vandinn við nýtingu þessa hráefnis er sá hversu kolefniskeðjurnar eru orðnar stuttar og hlaðnar súrefnisfrumeindum þegar búið er að breyta lífmassanum úr föstu efni í fljótandi. Til að búa til nothæft þotueldsneyti, sem m.a. þarf að halda eiginleikum sínum í miklu frosti, þurfa einkum tvenns konar efnaferli að eiga sér stað. Þar er annars vegar átt við afoxun sameindanna og hins vegar samtengingu þeirra. Nýjungin í aðferðum vísindamannanna í Delaware felst einkum í nýjum efnahvötum, svokölluðum „efnageitum“, sem m.a. eru framleiddar úr einföldu grafeni. „Geiturnar“ gera það mögulegt að keyra nauðsynleg efnahvörf við mun lægri þrýstingi og lægra hitastig en áður (um 60°C í stað 350°C), auk þess að skila mjög góðri nýtingu hráefnisins. Efnahvörfin taka auk heldur skemmri tíma en fyrri aðferðir og efnahvatarnir eru endurvinnanlegir.
(Sjá umfjöllun Science Daily 30. október).

Opna bakteríur nýjar dyr?

co2-160x159Vísindamenn við bandaríska rannsóknarstofnun hafa uppgötvað þann sjaldgæfa eiginleika bakteríunnar Clostridium thermocellum að binda koltvísýring úr andrúmslofti á sama tíma og hún brýtur sellulósa (beðmi) niður í nýtanleg kolvetni. Þessi uppgötvun gæti opnað nýja möguleika í framleiðslu lífeldsneytis úr sellulósa og kolefni andrúmsloftsins.
(Sjá frétt Science Daily í dag)

Aukin notkun lífeldsneytis í flugsamgöngum

flugvel_160Lífeldsneyti er í vaxandi mæli notað í flugsamgöngum, en á síðustu árum hafa um 40 flugfélög flogið um 600.000 mílur (hátt í milljón km) á slíku eldsneyti. Í skýrslu samtakanna NRDC kemur fram að flugfélög leggi sífellt meiri áherslu á íblöndun lífeldsneytis í flugvélaeldsneyti og á sama tíma hafi fyrirtækin ráðist í fjöldann allan af frumkvöðlaverkefnum á þessu sviði. Árlega losar flugið um 650 milljón tonn af koltvísýringi, sem samsvarar losun um 136 milljón bíla. Flugfélög heimsins stefna að því að losun frá flugsamgöngum nái hámarki árið 2020 og að árið 2050 verði nettólosunin helmingi minni en hún var 2005. Telja má víst að aukin notkun sjálfbærra orkugjafa sé undirstaða þess að hægt verði að standa við þessi fyrirheit.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Lífeldsneyti framleitt úr sagi

sawdustHollenska stofnunin KU Leuven’s Centre for Surface Chemistry and Catalysis hefur þróað aðferð til að framleiða nýtanleg kolvetni úr beðmi úr sagi og öðrum viðarafgöngum, en þetta gerir mönnum kleift að nota slíka afganga til framleiðslu á fljótandi eldsneyti. Beðmi er samsett úr kolefniskeðjum með áföstum súrefnisfrumeindum, en með hinni nýju tækni er hægt að fjarlægja súrefnið og gera efnið þannig nýtanlegra. Afurðina má nota til að auka hlutfall lífeldsneytis í bensíni eða í framleiðslu á vörum sem venjulega eru gerðar úr olíu, svo sem plasti, gúmmíi, einangrunarfrauði, næloni o.s.frv. Beðmi nýtist yfirleitt ekki í aðra framleiðslu, þannig að lífeldsneytið telst vera þriðju kynslóðar eldsneyti sem keppir ekki við fæðuframleiðslu. Beðmiseldsneyti er því góður kostur svo lengi sem notast er við fljótandi kolefnaeldsneyti í samgöngum.
(Sjá frétt Waste Management World 26. nóvember).

ESB takmarkar notkun fóðurplantna í lífeldsneyti

Biofuels made from sugar cane, Sao Paulo, BrazilFramvegis mega fóðurplöntur að hámarki standa undir 7% af allri framleiðslu lífeldsneytis í Evrópusambandinu samkvæmt nýju samkomulagi ráðherra orkumála ESB frá 13. júní sl. Notkun lífeldsneytis af fyrstu kynslóð hefur verið gagnrýnd þar sem eldsneytið er m.a. framleitt úr fóðurplöntum á borð við maís og sykurreyr sem gætu annars nýst sem fæða fyrir fólk og dýr. Jafnframt getur ræktun og landnotkun vegna framleiðslunnar haft í för með sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda og hækkun á matvælaverði. Með því að draga úr notkun fóðurplantna til eldsneytisframleiðslu er brautin einnig rudd fyrir lífeldsneytisframleiðslu af annarri og þriðju kynslóð svo sem framleiðslu úr lífrænum úrgangi, hauggasi o.s.frv. Samkomulag ráðherranna verður nú lagt fyrir Evrópuþingið til endanlegrar afgreiðslu.
(Sjá frétt the Guardian 13. júní).