Hávaði ógnar friðlýstum svæðum

Hljóð frá athöfnum manna hafa veruleg neikvæð áhrif á lífríki og upplifun gesta á flestum friðlýstum svæðum að því er fram kemur í rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Science í síðustu viku. Rannsóknin, sem er sú fyrsta sinnar tegundar, leiddi í ljós að á 63% friðlýstra svæða í Bandaríkjunum nam hljóðmengun tvöföldu bakgrunnsgildi og á 21% allra svæðanna var hljóðmengun tíföld eða meiri. Á þessum svæðum, sem taka til allt að 90% alls flatarmáls friðaðra svæða, er ekki lengur hægt að heyra náttúruhljóð, nema þá í besta falli í mjög lítilli fjarlægð. Þetta spillir gildi svæðanna til hvíldar og slökunar, auk þess sem framandi hljóð trufla eða styggja dýr og geta leitt til breyttrar tegundasamsetningar. Jafnvel plöntur verða fyrir áhrifum vegna breytinga á lífsháttum skordýra sem bera frjó á milli plantna. Algengast er að hljóðmengun berist frá flugumferð, vegakerfi, iðnaði eða byggð. Aðstandendur rannsóknarinnar telja mikilvægt að vernda hljóðvist á þeim svæðum sem enn eru tiltölulega ósnortin af utanaðkomandi hávaða.
(Sjá frétt Science Daily 4. maí).

Neðansjávarhávaði skaðlegri en talið var

160205100511_1_540x360Hávaði neðansjávar af mannavöldum virðist geta breytt hegðun hryggleysingja sem lifa á sjávarbotni að því er fram kemur í nýrri grein í tímaritinu Scientific Reports. Áhrif hávaða neðansjávar á fiska og spendýr hafa verið rannsökuð nokkuð, en þetta munu vera fyrstu vísbendingarnar um áhrif á hryggleysingja. Rannsóknin sem um ræðir var unnin af vísindamönnum við Háskólann í Southampton og í henni kom fram að hávaði hefði það í för með sér að dýrin rótuðu upp minna seti, sem aftur getur dregið úr dreifingu næringarefna og stuðlað að því að botninn verði þéttari og súrefnissnauðari en ella og þar með verri bústaður fyrir ýmsar lífverur sem eru undirstaða vistkerfisins í hafinu. Hljóð sem haft geta þessi áhrif geta m.a. borist frá skipaumferð og vindorkugörðum á hafi.
(Sjá frétt ScienceDaily 5. febrúar).