Endurnýjanlegt þotueldsneyti í þróun

Vísindamenn við Háskólann í Delaware eru komnir áleiðis í viðleitni sinni til að framleiða samkeppnishæft þotueldsneyti úr lífmassa, nánar tiltekið úr beðmi og tréni úr viðarkurli og maískólfum. Einn helsti vandinn við nýtingu þessa hráefnis er sá hversu kolefniskeðjurnar eru orðnar stuttar og hlaðnar súrefnisfrumeindum þegar búið er að breyta lífmassanum úr föstu efni í fljótandi. Til að búa til nothæft þotueldsneyti, sem m.a. þarf að halda eiginleikum sínum í miklu frosti, þurfa einkum tvenns konar efnaferli að eiga sér stað. Þar er annars vegar átt við afoxun sameindanna og hins vegar samtengingu þeirra. Nýjungin í aðferðum vísindamannanna í Delaware felst einkum í nýjum efnahvötum, svokölluðum „efnageitum“, sem m.a. eru framleiddar úr einföldu grafeni. „Geiturnar“ gera það mögulegt að keyra nauðsynleg efnahvörf við mun lægri þrýstingi og lægra hitastig en áður (um 60°C í stað 350°C), auk þess að skila mjög góðri nýtingu hráefnisins. Efnahvörfin taka auk heldur skemmri tíma en fyrri aðferðir og efnahvatarnir eru endurvinnanlegir.
(Sjá umfjöllun Science Daily 30. október).

Endurnýjanleg orka við tærnar á okkur!

xudong-wang-floor-power-775x517-160Vísindamenn við Háskólann í Wisconsin-Madison (UW) hafa þróað ódýrt, endurnýjanlegt og endingargott gólfefni sem getur framleitt raforku úr fótataki þeirra sem um gólfið ganga. Uppistaðan í efninu eru nanótrefjar úr sellulósa sem nóg er af í viðarúrgangi og fleiri aukaafurðum úr jurtaríkinu og byggir raforkuframleiðslan á snertingu sérstaklega meðhöndlaðra trefja við ómeðhöndlaðar trefjar. Hver eining getur verið allt niður í 1 mm að þykkt og er hægt að byggja gólfefnið upp úr mörgum slíkum lögum. Aðferðin hentar einkar vel í stórmörkuðum og á öðrum fjölförnum stöðum, en þar ætti að vera hægt að framleiða umtalsvert magn af raforku með þessum hætti. Næsta verk vísindamannanna er að prófa efnið við raunverulegar aðstæður.
(Sjá frétt á heimasíðu UW í dag).

Carlsberg skálar með lífbrjótanlegum bjórflöskum

Bjórframleiðandinn Carlsberg ætlar að þróa og framleiða fyrstu 100% lífbrjótanlegu bjórflöskuna, en samstarfið er hluti af framtaksverkefni Carlsberg um hringrásarhagkerfi. Græntrefjaflaskan verður framleidd úr viðartrefjum af sjálfbærum uppruna og hefur fyrirtækið gert 3ja ára samstarfssamning um þetta verkefni við umbúðafyrirtækið ecoXpac, Nýsköpunarsjóð Danmerkur og Tækniháskóla Danmerkur. Rekja má um 42% af kolefnisspori Carlsberg til umbúða og ætti þetta framtak því að geta dregið verulega úr losun fyrirtækisins. Vonir standa til að verkefnið marki tímamót í umbúðamenningu og verði þannig mikilvægt skref í átt að hringrásarhagkerfi án úrgangs.
(Sjá frétt EDIE 3. febrúar).