„Oxo-degradable“ plast verði bannað

Rúmlega 150 samtök og fyrirtæki, þ.á.m. Marcs & Spencer, Unilever og Pepsi, hafa sameinast um áskorun Ellen MacArthur stofnunarinnar til stjórnvalda um heim allan að banna notkun á ildislífbrjótanlegu plasti (e. oxo-degradable plastics), í það minnsta þar til óháðir rannsakendur hafi sýnt fram á að umrætt plast brotni fyllilega niður við ólíkar aðstæður á nógu skömmum tíma til að koma í veg fyrir uppsöfnun plastagna í umhverfinu. Plast af þessu tagi er notað í vaxandi mæli í plastpoka og aðrar umbúðir, en vísbendingar eru uppi um að staðhæfingar um niðurbrot þess eigi ekki við rök að styðjast. Að sögn talsmanns Ellen MacArthur stofnunarinnar er þetta efni hvorki endingargott né nothæft í endurvinnslu eða jarðgerð, og því eigi það ekki heima í hringrásarhagkerfinu. Þess má geta að ildislífbrjótanlegt plast hefur verið bannað í Frakklandi frá árinu 2015.
(Sjá frétt GreenBiz.com 7. nóvember).

Hollendingar vilja banna míkróplast

microplast_160Stjórnvöld í Hollandi, Austurríki, Lúxemborg, Belgíu og Svíþjóð hafa sent sameiginlega áskorun til umhverfisráðherra allra Evrópusambandslandanna um að þeir beiti sér fyrir banni gegn notkun míkróplasts í neytendavörur, enda sé slíkt bann forgangsatriði fyrir verndun lífríkis sjávar. Míkróplast brotnar ekki niður í náttúrunni og getur flutt með sér eiturefni upp fæðukeðjuna. Míkróplast er mikið notað í andlitsskrúbba, tannkrem, þvottaefni o.fl., þrátt fyrir að til séu náttúruleg efni sem gera sama gagn. Þetta plast á greiða leið til sjávar úr niðurföllum á heimilum, þar sem skólphreinsistöðvar ná ekki að sía það frá. Hollendingar óttast sérstaklega að plastið spilli kræklingastofnum, en ársframleiðsla þeirra á kræklingum nemur um 50.000-60.000 tonnum. Snyrtivöruframleiðandinn Unilever hefur lofað að hætta notkun míkróplasts í vörum sínar á þessu ári, en með banni væri tryggt að aðrir framleiðendur gerðu slíkt hið sama.
(Sjá fréttatilkynningu UNEP 16. janúar).