Þörungaplast kemur í stað umbúðaplasts

algae_plasticNýtt plastefni úr þörungum gæti komið í stað hefðbundins plasts í umbúðum, en hópur hönnuða hefur unnið að þróun efnisins undanfarin ár. „Plastið“ er unnið úr hlaupkenndum agar sem finna má í rauðþörungum og hefur sama efni verið notað í læknavísindum. Hönnuðurnir vinna nú að frumgerð sem keppir til úrslita í Lexus Design hönnunarkeppninni og verður í framhaldi af því sýnd í hönnunarvikunni í Mílanó. Hugmyndin er að framleiða fyrst plastpoka og litlar plastumbúðir úr efninu, t.d. fyrir hótel. Efnið brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og hefur ekki áhrif á vistkerfi sjávar, auk þess sem niðurbrot þess í jörðu eykur vatnsheldni jarðvegs.
(Sjá frétt Plastics Today 15. mars).

Lífbrjótanlegt plast er ekki lausnin

viewimageAukin notkun á svonefndu lífbrjótanlegu (e. biodegradable) plasti mun ekki leiða til minni plastmengunar í hafinu að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Plast sem er framleitt þannig að það brotni hraðar niður í náttúrunni en venjulegt plast þarf oftar en ekki allt að 50°C í nokkurn tíma til að niðurbrotið hefjist og slíkar aðstæður eru ekki í sjónum. Auk þess er hætt við að fólk umgangist plastið af meira kæruleysi en ella ef það er merkt sem „lífbrjótanlegt“. Nú er talið að allt að 20 milljónir tonna af plasti endi í hafinu á ári hverju.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP í dag).

Carlsberg skálar með lífbrjótanlegum bjórflöskum

Bjórframleiðandinn Carlsberg ætlar að þróa og framleiða fyrstu 100% lífbrjótanlegu bjórflöskuna, en samstarfið er hluti af framtaksverkefni Carlsberg um hringrásarhagkerfi. Græntrefjaflaskan verður framleidd úr viðartrefjum af sjálfbærum uppruna og hefur fyrirtækið gert 3ja ára samstarfssamning um þetta verkefni við umbúðafyrirtækið ecoXpac, Nýsköpunarsjóð Danmerkur og Tækniháskóla Danmerkur. Rekja má um 42% af kolefnisspori Carlsberg til umbúða og ætti þetta framtak því að geta dregið verulega úr losun fyrirtækisins. Vonir standa til að verkefnið marki tímamót í umbúðamenningu og verði þannig mikilvægt skref í átt að hringrásarhagkerfi án úrgangs.
(Sjá frétt EDIE 3. febrúar).