Noregur: 3% samdráttur milli ára í losun GHL

Árið 2019 nam losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) í Noregi samtals 51 milljón tonna CO2ígilda og hafði þá dregist saman um 3% frá árinu 2018. Mestu munar um 7% samdrátt í losun frá samgöngum á landi vegna minnkandi sölu á bensíni og dísli og vegna aukinnar íblöndunar lífeldsneytis í þessar vörur. Losun vegna flugsamgangna minnkaði um 6% milli ára og um 4% í sjóflutningum. Þá minnkaði losun frá olíu- og gasvinnslu um 2% vegna minni framleiðslu. Heildarlosunin hefur minnkað jafnt og þétt frá árinu 2007 og fara þarf aftur til ársins 1993 til að finna jafnlága heildartölu og 2019. Frá 1990 hefur losunin minnkað um 2%.
(Sjá fréttatilkynningu norsku hagstofunnar 2. nóvember).