Sex af hverjum 10 íbúum Stokkhólms geta hugsað sér að hætta að eiga eigin bíl og treysta þess í stað á leigubílasmáforrit til að komast leiðar sinnar, að því er fram kemur í könnun sem fyrirtækið Uber stóð fyrir. Reyndar er þetta hlutfall enn hærra í nokkrum öðrum borgum Evrópu. Um 78% íbúa í Stokkhólmi vilja að bílum á götum borgarinnar fækki. Með því að nota almenningssamgöngur og sameinast um bíla, t.d. með hjálp smáforrita, gætu íbúar stytt biðraðir, bætt loftgæði og dregið úr þörf fyrir bílastæði.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).
Greinasafn fyrir merki: bílastæði
Osló stefnir að helmingssamdrætti á fjórum árum
Borgaryfirvöld í Osló kynntu á dögunum „loftslagsfjárlög“ næstu ára þar sem fram kemur hvernig ná skuli losun gróðurhúsalofttegunda í borginni niður fyrir 600.000 tonn árið 2020 í samræmi við markmið sem borgin setti sér fyrr á þessu ári. Árið 2014 nam losunin 1,4 milljón tonna og er ekki vitað til að nokkur borg eða ríki hafi áður tekið svo róttæka ákvörðun um samdrátt í losun. Enn fremur er stefnt að því að Osló verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Þessum skjóta árangri á m.a. að ná með því að hækka veggjöld á bíla sem aka inn í borgina, fækka bílastæðum, útrýma olíukyndingu á heimilum og skrifstofum, skipta út almenningsfarartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti og fjölga enn hjólreiðastígum. Nýlunda þykir að flétta aðgerðir til að draga úr losun inn í fjárhagsáætlun borga eins og gert er í Osló, en einn af aðstoðarborgarstjórum borgarinnar orðar það svo að „þau ætli að telja kolefni eins og aðrir telja peninga“. Ef markmiðið næst vonast borgaryfirvöld til að árangur Oslóar verði öðrum borgum hvatning.
(Sjá frétt PlanetArk 29. september).
Hjólreiðar bæta afkomu fyrirtækja vestanhafs
Framámenn í viðskiptalífinu vestanhafs sækjast í vaxandi mæli eftir því að reka fyrirtækin sín í miðborgum þar sem útbúnar hafa verið sérstakar akreinar fyrir hjólreiðafólk. Þessi þróun stafar þó ekki af auknum áhuga á umhverfismálum, heldur hefur reynslan sýnt að afkoma fyrirtækja er betri þar sem hjólasamgöngur eru greiðar. Hjólreiðafólk fer til að mynda hægar yfir og staldrar frekar við í verslunum, auk þess sem stórfé sparast við það að hægt er leggja mörgum hjólum í stæði sem rúmar aðeins einn bíl. Starfsfólk á auk heldur auðveldara með að komast til og frá vinnu, streita vegna ferðalaga minnkar, heilsufar batnar, afköst aukast, veikindadögum fækkar og fyrirtækjum reynist auðveldara að laða til sín hæft starfsfólk af yngri kynslóðinni.
(Sjá umfjöllun í The Guardian 4. febrúar).