Norska ríkið fyrir rétt vegna olíuborana

Á morgun hefjast söguleg réttarhöld í Osló, þar sem tekist verður á um það hvort ný leyfi sem norsk stjórnvöld hafa veitt til olíuvinnslu í Barentshafi standist 112. grein norsku stjórnarskrárinnar um rétt komandi kynslóða til heilsusamlegs og öruggs umhverfis. Dómsmálið, sem er hið fyrsta sinnar tegunar, er höfðað af samtökunum Greenpeace og Nature and Youth. Samtökin halda því fram að með því að leyfa þessa starfsemi stefni norsk stjórnvöld fólki og umhverfi í verulega hættu, auk þess sem leyfisveitingarnar stríði gegn Parísarsamkomulaginu. Meðal þeirra sem komnir eru til Oslóar til að fylgjast með réttarhöldunum eru fulltrúar Fiji, sem er í hópi þeirra eyþjóða sem stafar mest ógn af loftslagsbreytingum. Fiji er einmitt í forsæti loftslagsráðstefnunnar (COP23) sem nú stendur yfir í Bonn.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag).

Fjárfestar gætu tapað 260 þúsund milljörðum

3000Á næstu 10 árum gætu fjárfestar tapað allt að 2.000 milljörðum Bandaríkjadala (um 260.000 milljörðum ísl. kr.) af því fé sem þeir hafa lagt í fyrirtæki og verkefni í jarðefnaeldsneytisgeiranum, þ.e.a.s. ef leiðtogar þjóða heims ná samkomulagi í París í næsta mánuði um aðgerðir sem duga til að halda hitastigshækkun á jörðinni innan við 2°C. Til að ná því marki þarf að draga hratt og mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem þýðir m.a. að engin þörf verður fyrir nýjar kolanámur og að eftirspurn eftir olíu mun minnka eftir 2020. Því verða mörg áformuð verkefni tilgangslaus og óarðbær, m.a. olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og vinnsla á tjörusandi. Þetta kemur fram í skýrslu hugveitunnar Carbon Tracker sem kynnt var í vikunni. Framkvæmdastjóri Carbon Tracker hafði á orði þegar skýrslan var kynnt að viðskiptasagan væri vörðuð dæmum af fyrirtækjum á borð við Kodak, sem hefðu ekki áttað sig á yfirvofandi breytingum og því setið eftir. Skýrslan fæli í sér viðvörun til fyrirtækja í jarðefnaeldsneytisgeiranum um hættuna á verulegu verðmætatapi sem komast mætti hjá.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Olíuslys á Norðurheimskautssvæðinu fyrirséð

Borpallur við GrænlandFullvíst má telja að olíuslys verði á Norðurheimskautssvæðinu ef leyft verður að bora þar eftir olíu. Þetta er mat sérfræðings sem stýrði rannsókn á Deepwater Horizon slysinu við oíuborpall BP á Mexíkóflóa vorið 2010. Slys á Norðurheimskautssvæðinu myndi auk heldur hafa langtum víðtækari afleiðingar en slys sunnar á hnettinum, þar sem niðurbrot olíunnar mun taka nokkra áratugi í svo köldum sjó, auk þess sem erfitt mun verða að beita tiltækum hreinsibúnaði við þær veðuraðstæður sem algengar eru á þessum slóðum. Olíuleit á svæðinu getur jafnvel skapað mikla hættu og haft áhrif á alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt The Guardian í dag).