Borgaryfirvöld í Osló kynntu á dögunum „loftslagsfjárlög“ næstu ára þar sem fram kemur hvernig ná skuli losun gróðurhúsalofttegunda í borginni niður fyrir 600.000 tonn árið 2020 í samræmi við markmið sem borgin setti sér fyrr á þessu ári. Árið 2014 nam losunin 1,4 milljón tonna og er ekki vitað til að nokkur borg eða ríki hafi áður tekið svo róttæka ákvörðun um samdrátt í losun. Enn fremur er stefnt að því að Osló verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Þessum skjóta árangri á m.a. að ná með því að hækka veggjöld á bíla sem aka inn í borgina, fækka bílastæðum, útrýma olíukyndingu á heimilum og skrifstofum, skipta út almenningsfarartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti og fjölga enn hjólreiðastígum. Nýlunda þykir að flétta aðgerðir til að draga úr losun inn í fjárhagsáætlun borga eins og gert er í Osló, en einn af aðstoðarborgarstjórum borgarinnar orðar það svo að „þau ætli að telja kolefni eins og aðrir telja peninga“. Ef markmiðið næst vonast borgaryfirvöld til að árangur Oslóar verði öðrum borgum hvatning.
(Sjá frétt PlanetArk 29. september).