Svansmerkt smínk loks fáanlegt

Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).

Vel heppnuð hreinsun í Oslóhöfn

oslohofn-160Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).

Skaðlegir þungmálmar í símahulstrum og veskjum

barnogsimahulstur_160Símahulstur og veski úr gervileðri innihalda mörg hver þungmálma. Þetta kom fram í nýrri athugun Test Fakta í Svíþjóð, þar sem skoðaðar voru 11 vörur af þessu tagi. Fimm af þessum vörum innihéldu blý, þar af fjórar í meiri styrk en leyft verður í væntanlegum reglum ESB um efnainnihald í vörum sem börn geta stungið upp í sig. Í símahulstri úr plasti frá Glitter fannst einnig óleyfilegt magn kadmíums og í tveimur hulstrum frá Apple og Phonehouse fannst mikið af krómi. Ekki var þó um að ræða sexgilt króm heldur þrígilt sem talið er minna skaðlegt heilsunni. Blý er oft að finna í gervileðri, einkum í rauðum lit, en króm finnst frekar í leðurvöru þar sem málmurinn er notaður við sútun. Ólíklegt er að þungmálmarnir í þessum vörum valdi heilsutjóni einir og sér, en hafa ber í huga að lítið er vitað um kokteiláhrif skaðlegra efna úr neytendavörum. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir slíku.
(Sjá frétt Test Fakta 12. janúar).

Óleyfileg efni í tímaritum fyrir börn

spiderman_maske800Í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk fundust óæskileg efni í 5 af 18 leikföngum sem fylgdu með tímaritum fyrir börn. Í framhaldi af þessu hafa þrjú tímaritanna verið kærð til yfirvalda fyrir ólöglega efnanotkun. Með umræddum tímaritum fylgdu leikföng á borð við bolta, dúkkur, prumpublöðrur og strokleður og fundust meðal annars þalöt og blý í þessum vörum. Samkvæmt dönskum lögum mega leikföng ekki innihalda meira en 0,1% af þalatinu DEHP sem er hormónaraskandi efni. Tvö leikföng voru yfir mörkum hvað þetta varðar. Þannig innihélt plastútvarp sem fylgdi með tímaritinu Prinzessin Lillifee 15% DEHP, auk þess sem styrkur blýs í leikfanginu var 2.560 mg/kg. Umhverfisstofnun Danmerkur ætlar ekki að verða við beiðni Tænk um að beita sér fyrir því að strokleður sem fylgdi með tímaritinu Wendy verði tekið af markaði þar sem strokleður séu ekki skilgreind sem leikföng í dönskum lögum. Tænk bendir hins vegar á að reglur um leikföng hljóti að eiga að gilda um strokleður sem séu beinlínis markaðsett fyrir börn.
(Sjá frétt Tænk 13. nóvember).

Blýlaust bensín sannar mikilvægi sitt

3210440_2048_1152_160Styrkur blýs í líkömum sænskra barna hefur minnkað sexfalt frá árinu 1994 þegar blýlaust bensín komst í almenna notkun þarlendis. Þetta kemur fram í sænskri handbók um eiturefnafræði málma (Handbook on the Toxicology of Metals). Sænski eiturefnafræðingurinn Staffan Skerfving segir þróunina frá blýblönduðu bensíni vera dæmi um farsælt verkefni sem hefur bætt heilsufar íbúa. Þróunin hefur verið svipuð í öðrum löndum eftir að bannað var að blanda blýi í bensín. Blýið er lengi til staðar í umhverfinu, en Staffan telur að á þeim 20 árum sem liðin eru hafi stór hluti þess bundist í jarðvegi og hafi því sífellt minni áhrif á heilsu manna. Á síðustu árum hafa mörg þróunarríki einnig hætt notkun blýblandaðs bensíns og er talið að það sé nú einungis selt í sex ríkjum. Blý getur m.a. haft skaðleg áhrif á þróun heilastarfsemi hjá börnum.
(Sjá frétt Sveriges Radio 20. mars).

Þungmálmar í málmleikföngum og ódýrum skartgripum

BlárbíllMálmleikföng og ódýrir skartgripir innihalda oft þungmálma sem geta skaðað heilsu barna sem setja vörur af þessu tagi upp í sig. Meðal efna sem fundust í leikföngum og skartgripum í nýlegri rannsókn vestanhafs má nefna blý, kadmíum, kopar, nikkel, arsenik og antímon. Í rannsókninni var sýnt fram á að þessi efni gætu leyst upp í meltingarvökva og þannig borist um líkamann. Heilsufarsleg áhrif af þessu geta bæði verið skammvinn og langvarandi. Blý og kadmíum geta t.d. haft áhrif á vitsmunaþroska barna.
(Sjá frétt Science Daily 5. mars).

Sektað fyrir óleyfileg efni í vörum fyrir börn

HanskarNorska garðvörukeðjan Plantasjen hefur samþykkt að greiða 400.000 norskar krónur (tæpar 9 millj. ísl. kr.) í sekt eftir að blý, þalöt og stuttar klórparafínkeðjur fundust í þremur af átta vörum frá fyrirtækinu, sem Umhverfisstofnun Noregs (Klif) lét greina í reglubundnu eftirliti. Vörurnar sem um ræðir voru litskrúðug ljósasería, garðdót og garðhanskar fyrir börn; allar fluttar inn frá Asíu. Auk sektarinnar voru 500.000 norskar krónur af söluandvirði gerðar upptækar (rúmar 11 millj. ísl. kr).
(Sjá frétt á heimasíðu Klif í morgun).

Hormónaraskandi efni í öllum?

Kvikasilfur, kadmíum, kótínín og þalöt voru meðal þeirra efna sem fundust í 4.000 þvag- og hársýnum frá mæðrum og börnum þeirra í 17 Evrópulöndum sem tóku þátt í rannsókn sem sagt var frá á ráðstefnu á Kýpur í síðustu viku. Í 6 af þessum löndum var einnig leitað að bisfenól A, parabenum og tríklósan, og reyndust þessi efni einnig vera til staðar í sýnunum. Efnin eiga það sameiginlegt að vera hormónaraskandi og geta þannig átt þátt í margs konar alvarlegum kvillum. Talsmenn efnaiðnaðarins telja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum þar sem styrkur efnanna hafi verið undir hættumörkum. Samtök um heilsufar almennings eru á öðru máli og benda á að þessi efni eigi ekki að vera til staðar í líkama fólks, auk þess sem áhrif þeirra til langs tíma kunni að vera vanmetin og of lítið sé vitað um samlegðaráhrif efnanna (kokkteiláhrif).
(Sjá frétt EurActive 26. október).