Síðastliðinn föstudag varð bílaþvottastöð Shell við Solbråveien í Asker fyrsta svansmerkta bílaþvottastöðin í Noregi. Samtals eiga Norðmenn nú um 2,5 milljónir einkabíla og er áætlað að árlega fari um 10 milljónir rúmmetra af vatni og 100.000 tonn af hreinsiefnum í að þvo alla þessa bíla. Mest af þessu rennur út í nærliggjandi vötn og firði, blandað með tjöruleifum og öðrum óhreinindum af bílunum, auk þess sem eitthvað safnast fyrir í seyru í skólphreinsistöðvum og er síðan gjarnan notað til áburðar á akra. Til að fá Svaninn þurfa bílaþvottastöðvar að uppfylla strangar kröfur um hreinsiefni, vatnsnotkun og hreinsun frárennslis, svo eitthvað sé nefnt. Áætlað er að svansmerktar bílaþvottastöðvar noti um 75% minna vatn en aðrar stöðvar og að þar sé hreinsun fráveituvatns um 90% betri en annars staðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 21. október).
Greinasafn fyrir merki: bílaþvottur
100 svansmerktar bílaþvottastöðvar í Danmörku
Á dögunum náði fjöldi svansmerktra bílaþvottastöðva í Danmörku hundraðinu, en til að fá vottun Svansins þurfa stöðvarnar að nota mun minna af vatni og skaðlegum efnum en gengur og gerist í atvinnugreininni. Þannig má svansmerkt bílaþvottastöð nota í mesta lagi 70 lítra af fersku vatni í hvern þvott, en reyndar getur vatnsnotkunin farið allt niður í 35-40 lítra. Þessi litla notkun byggir á því að stöðvarnar eru búnar hringrásarkerfi sem hreinsar vatnið þannig að hægt er að endurnota stóran hluta þess. Svansmerktar stöðvar mega ekki nota hreinsiefni með nanóögnum, skaðlegum flúorsamböndum eða efnum sem talin eru upp á lista ESB yfir hugsanlega hormónaraskara. Tiltekinn hluti hreinsiefnanna verður líka að vera svansmerktur. Olíufélagið OK hefur lagt mikla áherslu á að fá Svansvottun á bílaþvottastöðvar sínar í Danmörku, en OK rekur 99 af þeim 100 stöðvum sem komnar eru með vottun. Hvatinn að þessu er ekki aðeins umhverfislegur, heldur segja forsvarsmenn OK að svansmerktu stöðvarnar komi betur út í rekstri.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 29. janúar).
Betri bílahreinsiefni vænlegri en þvottabann
Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) telur lagaheimild skorta til að unnt sé að banna bílaþvott á götum úti, enda þótt slíkum athöfnun fylgi hætta á að olía, þungmálmar og önnur mengandi efni berist út í nattúruna. Þetta álit stofnunarinnar kemur í framhaldi af tíðum fyrirspurnum sveitarfélaga um möguleika sína á að beita boðum og bönnum til að koma í veg fyrir að þvottavatn af bílum berist óhreinsað í niðurföll. Í stað banns mælir Naturvårdsverket með því að fólk verði upplýst um umhverfisáhrifin og hvatt til að nota vistvæn hreinsiefni.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 7. maí).