Vel heppnuð hreinsun í Oslóhöfn

oslohofn-160Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).

Hærri styrkur koltvísýrings dregur úr næringargildi plantna

nytjaplantaJárn- og sinkinnihald í nytjaplöntum mun lækka verulega eftir því sem styrkur koltvísýrings í andrúmslofti hækkar, samkvæmt því sem fram kemur í grein ísraelskra vísindamanna í tímaritinu Nature. Höfundar telja þennan mikla samdrátt í snefilefnainnihaldi plantna vera eina af hættulegustu afleiðingum loftslagsbreytinga fyrir heilsu manna. Ef spár um styrk koltvísýrings í andrúmslofti fram til ársins 2050 ganga eftir má ætla að um það leyti hafi efnainnihaldið breyst verulega. Í dag þjást um 2 milljarðar manna af járn- og sinkskorti og 63 milljónir láta lífið árlega sökum vannæringar. Höfundar greinarinnar orða það svo, að þessi næringarefnaskortur verði ein af mörgum óvæntum afleiðingum þeirrar risavöxnu tilraunar sem mannkynið geri nú á eigin tilverugrundvelli.
(Sjá frétt ENN í dag).