Vel heppnuð hreinsun í Oslóhöfn

oslohofn-160Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).

Kínversk stjórnvöld hvetja til málaferla gegn mengunarvöldum

Industrial Waste Water Discharge in the Yellow River in ChinaKínversk stjórnvöld kynntu í síðustu viku löggjöf sem gefur frjálsum félagasamtökum, hópum náttúruverndarsinna og öðrum hópum hagsmunaaðila aukin réttindi til að lögsækja mengunarvalda. Hópar sem standa í málaferlum sem miða að því að draga úr mengun í Kína munu m.a. fá afslátt af málskostnaði, auk þess sem félagasamtök fá aukið svigrúm til að höfða mál gegn fyrirtækjum án tillits til þess hvar fyrirtækin eru skráð. Nýlegar rannsóknir benda til að í dag séu um 2/3 af jarðvegi í Kína mengaðir, svo og um 60% af öllu grunnvatni. Þá er Kína með hæstu losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Stjórnvöld lýstu á síðasta ári yfir stríði gegn mengun og er aðgerðin liður í þeirri baráttu.
(Sjá frétt the Guardian 7. janúar).

Mengaður jarðvegur á 340.000 stöðum í Evrópu

soil_contaminationÆtla má að mengaðan jarðveg sé að finna á um 340.000 stöðum í Evrópu. Þetta kemur fram í matskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Aðeins er vitað um þriðjung þessara staða og enn sem komið er hafa aðeins um 15% verið hreinsuð.  Mikill kostnaður fylgir hreinsun jarðvegs og erfitt getur reynst að beita mengunarbótareglunni við fjármögnun slíkra aðgerða þar sem oft eiga í hlut fyrirtæki sem eru hætt starfsemi. Árlegur kostnaður vegna mengaðs jarðvegs í Evrópu er áætlaður um 6,5 milljarðar evra (rúmlega 1.000 milljarðar ísl. kr). Talsverður hluti af þessum kostnaði lendir á almenningi. Um þriðjung vandamálsins má rekja til sorpförgunar og meðhöndlunar úrgangs og því eru úrgangsforvarnir ein besta leiðin til að koma í veg fyrir jarðvegsmengun. Málmiðnaður, bensínstöðvar og námuvinnsla eiga líka stóran þátt í menguninni, sem oftast er í formi jarðolíu eða þungmálma.
(Sjá frétt EEA 3. maí).